Héraðssaksóknari hefur ákært mann fyrir kynferðislega áreitni, líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum. Málið snýst um ítrekuð brot mannsins gegn ólögráða stúlku, frá febrúar árið 2019 og fram á haust sama ár.
Maðurinn er sakaður um að hafa kysst og káfað innan- og utanklæða á brjóstum og kynfærum stúlkunnar, sem og að hafa „rasskellt hana í að minnsta kosti eitt skipti og þannig beitt hana líkamlegri refsingu og sýnt henni vanvirðandi háttsemi,“ eins og segir í ákæru.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fyrir hönd stúlkunnar er krafist fimm milljóna króna í miskabætur.
Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 11. maí síðastliðinn. Búast má við að dómur falli snemma í sumar eða í haust.