fbpx
Laugardagur 05.október 2024
Fréttir

Guðmundur hefur barist í 13 ár fyrir réttlæti – „Ríkið er harðsnúið þegar kemur að bótum vegna pyntinga“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 10. maí 2023 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 8. júní næstkomandi verður fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Guðmundar R. Guðlaugssonar gegn ríkinu.

Málið á sér afar langa sögu en upptök þess eru þau að Guðmundur var handtekinn árið 2010 og honum haldið 11 daga í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á fíkniefnamisferli sem sonur hans var talinn eiga hlut í en var svo sýknaður af. Gæsluvarðhald Guðmundar var síðar úrskurðað ólöglegt og staðhæft er í stefnu málsins að lögregla hafi í raun ekki haft hann grunaðan um neitt misjafnt heldur hafi haft hann í haldi til að „ná til sonar stefnanda í gegnum föður hans,“ eins og það er orðað.

Guðmundur var beittur harðræði við handtökuna og ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í gæsluvarðhaldinu sem lögmaður hans telur falla undir pyntingar. Í stefnunni segir:

„Stefnandi sætti harðræði við handtökuna. Á meðan á vistun stóð voru reglur þverbrotnar. Hann fékk t.d. ekki útivist, það var mikill hávaði, hann var í einangrun, hann var í þröngum gluggalausum klefa og ljós logaði allan sólarhringinn. Hávaði barst víða að. Er þetta ekki tæmandi talning á illum aðbúnaði sem hann sætti en þetta atriði kemur víða fram í skjölum máls“

Guðmundur varð fyrir gífurlegu tjóni vegna gæsluvarðhaldsins, meðal annars atvinnumissi, en hann er menntaður kjötiðnaðarmaður og var í stjórnunarstöðu hjá framleiðslufyrirtæki. Missti hann starfið og fékk ekki starf að nýju í faginu vegna mannorðsmissis.

Málið komið á fermingaraldur

Guðmundur fékk á sínum tíma samtals 7,6 milljónir króna í bætur eftir tvær málshöfðanir. Málið sem hann höfðar núna er vegna örorku, sem er staðfest í þremur matsgerðum og er afleiðing af handtökunni og gæsluvarðhaldinu.

Málið var fyrst höfðað árið 2018 en vegna vanreiknings dómskvaddra matsmanna á tjóni Guðmundar þurfti að taka þennan hluta málsins út úr málatilbúnaðinum á þeim tíma og höfða nýtt mál.

Þetta er því orðin löng þrautaganga hjá Guðmundi og sér ekki fyrir endann á málinu. „Atvikin eru að nálgast fermingaraldur og mér finnst fréttnæmast í málinu hvað ríkið hefur þumbast við að borga,“ segir Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, sem rekur málið fyrir Guðmund. Einar Gautur bendir á – og er það rakið skilmerkilega í stefnunni – að Hæstiréttur hefur þegar úrskurðað ríkið bótaskylt vegna heilsutjóns Guðmundar sem hlaust af aðgerðum lögreglu og dómsvalds. Hins vegar hefur aðilum ekki borið saman um upphæð bóta og viðbrögð ríkisins hafa verið þau að borga ekki neitt.

„Það er allt í lagi að deila um uppgjör en ríkið á þá að borga það sem það telur sér skylt og það er til háborinnar skammar að þeir séu ekki búnir að því. Greiðsluskyldan hvílir á ríkinu og þeir hljóta að gera sér grein fyrir því að þeim ber að borga bætur og það væri ekkert tryggingafélag sem myndi haga sér svona. Hæstiréttur er þegar búinn að dæma ríkið fyrir að hafa valdið tjóni með ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð á Guðmundi, fyrir að hafa brotið mannréttindi og stjórnarskrá. Samt borga þeir ekki,“ segir Einar.

Guðmundur krefst rúmlega 56 milljóna króna í bætur, að viðbættum vöxtum frá árinu 2012.

Guðmundur segir í samtali við DV að þetta sé orðinn ærið langur tími en hann gefst ekki upp. „Já, það sér ekki fyrir endann á þessu. Ríkið er harðsnúið þegar kemur að bótum vegna pyntinga,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Ten Hag fær einn leik
Fréttir
Í gær

Arnar Björn kynntist konu á samskiptaforriti og nauðgaði henni 10 dögum síðar – 2 og hálfs árs dómur staðfestur

Arnar Björn kynntist konu á samskiptaforriti og nauðgaði henni 10 dögum síðar – 2 og hálfs árs dómur staðfestur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tvö íslensk fyrirtæki á lista Great Place To Work

Tvö íslensk fyrirtæki á lista Great Place To Work