Kona hefur dæmd til þess að greiða fyrrum eiginmanni sínum 150 þúsund krónur í miskabætur eftir að hafa veist að honum á bókasafni Reykjanesbæjar árið 2016. Úrskurður þess efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness á dögunum en maðurinn fór fram á miskabætur upp á 500 þúsund krónur.
Í dómnum kemur fram að parið hafi slitið hjúskap sínum árið 2014 en þá hafi komið upp ágreiningur varðandi forsjá tveggja barna þeirra. Bóksafn Reykjanesbæjar er staðsett í ráðhúsi bæjarins en þar var ráðgerður fundur með barnaverndarfulltrúa til þess að freista þess að höggva á hnútinn. Hjónin fyrrverandi voru stödd í bókasafnshluta hússins ásamt börnum sínum þegar sauð upp úr milli þeirra með þeim afleiðingum að konan réðst á manninn sem síðar kærði árásina.
Í dómnum kemur fram að konan hafi borið ýmsar ásakanir á manninn á fundinum og verið mjög æst. Til hafi staðið að konan myndi leita til Kvennaathvarfsins með börn sín eftir fundinn en eiginmaðurinn fyrrverandi þá viljað taka börnin þeirra tvö í fangið og kveðja þau.
Hafi konan verið ósátt við það og freistað þess að taka þau af honum en þegar það gekk ekki hafi hún veist að honum og sparkað í sköflung hans, slegið hann með krepptum hnefa og með flötum lófa nokkrum sinnum í öxl og upphandlegg, auk þess að klóra hann. Starfsmenn barnaverndar urðu vitni að atvikinu en kalla þurfti á lögreglu til að stöðva árásina og þurfu laganna verðir að hafa verulega fyrir því, svo vitnað sé í dóminn.
Maðurinn fékk læknisvottorð í kjölfar árásarinnar en þar kom fram að greina mátti fjögur grunn sár, líklega klórför, á handlegg hans.