Ingólfur Guðni Árnason lést 16. apríl síðastliðinn, 50 ára að aldri. Útför Ingólfs Guðna fór fram frá Vídalínskirkju í dag að viðstöddu fjölmenni, en hann var vinamargur og andlát hans reiðarslag fyrir fjölskyldu hans og vini. Séra Jóna Hrönn Bolladóttir leiddi útförina af ást og umhyggju og tónlistarfólk fór á kostum að sögn Sveins Waage, frænda og vinar Ingólfs Guðna.
Ingólfur Guðni skilur eftir sig þrjú börn og er þeim sem vilja minnast hans bent á styrktarreikning sem stofnaður hefur verið fyrir þau og má finna upplýsingar um hér neðst í greininni.
Sveinn flutti minningarorð við útförina sem hann gaf DV góðfúslega leyfi til að birta. Segir Sveinn að verkefnið sé það erfiðasta sem hann hafi gert fyrir aftan hljóðnema, en um leið sé það „mikill heiður og ánægja að fá að minnast og kveðja Ingó með bros á vör í gegnum tárin.“ Gefum Sveini orðið, millifyrirsagnir eru blaðamanns:
„Elsku besta fjölskylda og vinir. Hólí shitt! Hvað þið eruð mörg.
Þegar þetta ávarp var sett saman var leiðarljósið eftir samveru okkar aðstandenda, að hafa það eins „Ingó-legt“ og hægt var. Látum vaða. Ok?
Til að byrja með þá er ég með játningu sem ég vil deila með ykkur. Ég er í ástarsambandi með eiginmanninum hennar Jónu Hrannar prestsins okkar í dag. Ég hef fengið að vinna að fyrirlestri með hinum dásamlega sr. Bjarna Karlsyni um virkni Húmors. Þar kemur einmitt fram að við þekkjum fólk sem lifir fyrir húmor og að hlæja. Fólk eins og Ingó. Ingó sem elskaði að fíflast, grínast og hlæja með sinn geggjaða húmor sem var allt frá aulahúmor yfir í kolsvartan. Og allt þar á milli. Því meira vandró og neyðarlegt því betra.
Svo kemur reyndar í ljós, sérstaklega síðustu daga, að Jóna Hrönn er ekki síður dásamleg en Bjarni, þannig að ég er eiginlega í ástarsambandi með þeim báðum núna,“ segir Sveinn, sem segir samt sögurnar sýna og sanna að Ingó sjálfur var landfyndnastur og það óvart.
Óheppni að panta borð við hlið Ingó þegar hann var í essinu sínu
Sveinn segir að á spítalanum hafi aðstandendur Ingólfs Guðna fengið „að heyra orð sem huggaði okkur lítið um ástæður þess að við misstum Ingó. Óheppni!? Ok og ef við notum það áfram er ljóst að óheppni Ingó er í efstu hillu. En ég get þá sagt ykkur hvaða óheppni er í næstu hillu fyrir neðan. Það er sú óheppni að panta borð við hliðina á okkur strákunum þegar Ingó var í essinu sínu. Díses Kræst!,“ segir Sveinn og rifjar upp tvö dæmi:
„Við eigum tvö dæmi sem gerðust bæði á veitingastað sem heita „Meat“ , annar í Reykjavík hinn í Liverpool (við erum sem sagt ekki vegan). Í Liverpool lýsti Ingó fyrir okkur hvernig óvænt kirtlastarfsemi átti sér stað við frekar viðkvæmar aðstæður. Í kjölfarið stóð líkamleg heilsa okkar tæpt úr hlátri … sem bara var ekki hægt að hemja. Hugsið ykkur ef einhver vesalings Scouser úr Liverpool var búinn að safna fyrir dinner með kærustunni, með hring í vasanum og lenti svo á næsta borði við okkur. Það væri alvöru óheppni.
Hitt dæmið var þegar við hittumst á MEAT í Reykjavík og í miðjum skemmtilegum dinner fann Ingó sig knúinn til að kalla á eftir manneskju á útleið sem var búin að spjalla við okkur fyrr um kvöldið, að þarna á borðinu okkar væri Valur í Buttercup!! Þetta voru upplýsingar sem voru í ENGU samhengi við eitt né neitt. Eftir alvarlegt hláturkast uppgötvuðum við að við vorum búnir að týna Sigga Vídó. Hann hafði sem sagt endað á gólfinu og komst skuggalega nálægt því að hreinlega deyja úr hlátri.“
Ingó leiðinlega góður í að elda
Sveinn segir þó bestu matarboðin hafa verið í heimahúsi þegar Ingólfur Guðni sá um eldamennskuna.
„Hann var leiðinlega góður í því. Ég átti ekkert í hann … nema kannski í Lasagna, því Ingó notaði Knorr og ég hélt í það eins og grimmur hundur á roði. Haha þú og þitt Knorr! Svo var það svo týpískt hann að þegar ég stillti upp öllu innihaldsefninu mínu á borð, tók mynd og sendi strákunum, þá var Ingó fyrstur til að kommenta og lýsa ánægju sinni. Hann gat ekki hundskast til að skjóta til baka á keppinautinn í Lasagna-deilunni miklu. Vonlaus í svona banter. Allt of næs.
Hann var reyndar alltaf fyrstur til að læka á allt, líka á þessa minna spennandi vinnutengda pósta og hvetja mann áfram. Það er ekki hægt að segja það sama um hina svokölluðu vini sína hérna í dag. Djók. Samt ekki. En vá takk fyrir allan matinn elsku Ingó. Hver á núna að sjá um Chimmi-Churríið?“
Ekki bara skemmtilegur
Sveinn minnist vinar síns og frænda með mikilli hlýju og segir hann ekki bara hafa verið skemmtilegan.
„Hann var líka kærleiksríkur og þá meina ég kærleiksríkur, ekki eitthvað sem maður segir af því að hann er farinn. Hann var eins traustur vinur og hugsast getur. Enginn reyndist mér betur, enginn, þegar ég kom heim frá USA 1997 í algeru tjóni eftir 3 ár í misvondum aðstæðum. Hann tók mig inn á Skólavörðustíg 18. „Svenni frændi var kominn heim, reddum því.“ Hann, Valur og Siggi áttu svo hugsanlega eftir að sjá aðeins eftir því. Ingó reddaði mér líka vinnu nánast samdægurs í Innnes. Og þar byrjaði mitt grin-brölt allt saman, sem sér ekki fyrir endann á. Og þú fékkst Val líka til að byrja að syngja … gaur þú átt ýmislegt á samviskunni Ingó minn. Tíminn okkar á Skólavörðustíg þarf sérstaka umræðu sem mörg ykkar kannast við. Ingó á þar auðvitað epískt moment þegar hann vakti allt nágrennið með látum út af eldi í íbúðinni sem hundur hefði getað migið á og slökkt. En annars var Skólavörðustígur 18, íbúðin þar sem teppahreinsivélar fóru til að deyja. Say no more.
Við Ingó fengum að vinna saman frá þessari stundu og fram að andlátinu. Við vitum öll hversu mikill listamaður hann var á sínu sviði. Vitnisburður kollega hans segir allt um það. Hann gat reyndar verið gjörsamlega óþolandi nákvæmur þegar hann var að taka upp lestur. „Svenni við þurfum að ná betur utan um „bíla“ í orðinu „bílasýning.“ Ertu að kidda mig? „Lestu þetta bara aftur,“ sagði Ingó.
Hann var alltaf til í að hafa gaman, nema kannski í seinni tíð þegar hann var með börnin. Já alveg „ömurlegur” gaur. Utanlandsferðirnar til Englands standa upp úr og þegar við fórum saman á Hróarskeldu. Við vorum með plön sko. Eitt af því var að ná laginu Everybody Hurts með REM, sitja aftast með jónu og syngja með … með Jónu frænku sko. Everybody hurts á soldið við í dag. En eftir þetta var ég búinn að samþykkja að sjá Robbie Williams, fyrir Ingó sko. Það reyndust svo einu tónleikarnir þar sem ég fór úr að ofan. Og Ingó náði af því mynd og hló endalaust. Óliver Nói minn það þarf ekki að fara í gegnum allar myndir hjá pabba þínum sko.“
Mikill Púllari
Sveinn segir Ingólf Guðna hafa verið mikill áhangandi Liverpool. „Ingó var mikill Púllari svo mikill Púllari að hann átti nýjan ársmiða á Anfield með öðrum álíka biluðum Púllurum. Okkur datt reyndar í hug að þar sem Ingó okkar verður brenndur að fá smá ösku í poka með okkur á Anfield. En svo gæti það miskilist að vera með duft í poka og við viljum síður þurfa setja Ingó í klósettið í einhverju panikki. Þykist samt vita að ef það myndi gerast og ef það er eitthvað eftirlíf þarna úti að Ingó myndi pottþétt segja öllum „Iss það er ekki neitt … mér var sturtað niður á Anfield! Toppaðu það.”
Lokaorðin verða Ingós
Sveinn segir það að missa Ingólf Guðna á svipstundu sé ekkert minna en hræðilegt.
„En ef við reynum að sjá eitthvað bjart, þá eru líkurnar á comeback-i hjá Dancing Mania nánast engar. Blessunarlega. Brenglaði húmorinn okkar í textunum á líklega aðeins minna erindi í dag. En við vorum að grínast samt. Be free! Og svo þarf ég ekki lengur að heyra söguna þegar frændi hans pissaði út fyrir um miðja nótt, þegar við deildum saman hótelherbergi í fótboltaferð. Þessi saga varð alltaf stærri og stærri og gott ef loftið á baðherberginu var ekki orðið gegnsósa undir lokin. Pissað út fyrir í London… er líklega ekki það sem þið áttuð von á að heyra í þessu ávarpi. En Ingó myndi pottþétt segja þessa sögu í minni jarðarför. 100%.
Þegar við kvöddum Ingó á spítalanum sagði elsku Erna mamma hans að hún væri að bíða eftir því að hann risi upp og segði bara grín… og ég skil hana svo vel. Að því sögðu vitum við öll hvað Ingó myndi segja ef hann væri á lífi með okkur í dag; Halló! Hleypið mér út! Elsku frændi og yndislegi vinur minn. Elsku Ingó. Ég elska þig og ég mun sakna þín svo mikið. Og hérna tala ég fyrir hönd allra hérna inni. Mín lokaorð verða þín orð. Þín orð í hvert sinn sem maður kvaddi þig; Later dude, love you man!”
Þeim sem vilja minnast Ingólfs Guðna er bent á styrktarreikning fyrir börn hans, sem er á nafni Evu Lísu dóttur hans:
Kennitala: 210601-2280
Reikningur: 0123-15-060348