fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Segir skriflega ásökun gegn Arnari hafa verið kvittaða með tilbúnu nafni og númeri á pizzastað – „Hversu illa innrætt er þessi manneskja, eða hópur?“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 2. maí 2023 07:00

Stefán Arnar Gunnarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég ætla ekki að rekja aðdragandann að því sem varð til þess að Arnar sá enga aðra leið færa en að leggjast til sjósunds um miðja nótt og binda enda á líf sitt,“ skrifar Elísabet Sveinsdóttir, föðursystir Stefáns Arnars.  „Í dag jörðum við frænda minn og bróðurson, Stefán Arnar Gunnarsson – Arnar frænda. Arnar var sonur Gunna bróðurs. Hann fæddist árið 1978 í Keflavík en flutti fljótlega til Akureyrar eftir að Gunni og mamma Arnars slitu samvistum. Við föðurfólkið vorum ekki stór hluti af lífi hans í æsku en þegar hann eltist og varð sjálfráða leitaði hann æ oftar til okkar og úr varð góður frændskapur og traust vinátta.“

Stefán Arnar fannst látinn 2. apríl í fjöruborðinu við Fitjabraut í Reykjanesbæ, en hans hafði þá verið leitað síðan 3. mars.

„Ég ætla heldur ekki að rekja það sem fjölskyldan og nánustu vinir Arnars hafa gengið í gegnum undanfarnar vikur – það yrði ekki uppörvandi lesning. Þó vil ég segja að mikið þurfum við, sem eftir sitjum, að læra af þessum harmleik þannig að andlát Arnars sé ekki gjörsamlega tilgangslaust – heldur djúpur lærdómur!“ 

Samúel Ívar Árnason, bróðir Arnars, skrifaði færslu um aðdragandann að andláti bróður síns, sem DV fékk góðfúslegt leyfi til að birta um miðjan apríl. Fjallar hann þar meðal annars um ásakanir á hendur bróður sínum um ósæmilega hegðun hans gagnvart iðkendum og brot á siðareglum HK, þar sem Arnar starfaði sem handboltaþjálfari yngri flokka til margra ára.

Samúel segir aðför að mannorði Arnar bróður síns hafa ýtt honum fram af brúninni

17.janúar á þessu ári barst ÍSÍ bréf um að Arnar hafi hagað sér ósæmilega gagnvart iðkendum og brotið siðareglur félagsins. HK sé meðvitað um stöðuna en sé ekki að gera neitt í málinu segir Samúel.   „Innihald þessa bréfs er byggt á sögusögnum og dylgjum og standast nákvæmlega enga skoðun þegar kafað er í málið. HK fær tilkynningu frá ÍSÍ um að þeim hafi borist þetta bréf og eiga í einhverjum samskiptum við samskiptaráðgjafa ÍSÍ sem fer með málið fyrir hönd ÍSÍ, en ekkert úr þeim samskiptum er notað sem ástæða uppsagnar sem á sér loks stað 24. janúar á þessu ári. Þar eru ástæður uppsagnar sagðar „brot á siðareglum“ sem felst í að Arnar tók poka með sokkum og leyfði iðkendum að eiga, og „samskiptavandi milli Arnars og foreldra í hópnum“,“ segir Samúel.

Bréf til ÍSÍ kvittað með tilbúnu nafni

Elísabet segir nokkur atriði sitja í sér eftir andlát bróðursonar hennar, þar á meðal ofangreint bréf sem sent var til samskiptastjóra ÍSÍ. „Og „kvittað“ undir með uppdiktuðu nafni sem ekki er til í þjóðskrá og símanúmeri á pizzastað! Hversu lágt getur manneskja lagst að fremja svona gjörning? Hversu illa innrætt er þessi manneskja, eða hópur? Hvað fer fram í höfðinu á fólki sem ber fram alvarlegar ásakanir en hefur ekki manndóm í sér til að kvitta undir með eigin nafni? Ætli þeim hafi þótt fyndið að setja símanúmer á pizzastað undir bréfið? Var þetta kannski bara grín? Hversu sjúkur húmor… Þegar við fengum vitneskju um þetta athæfi varð mér allri lokið,“ segir Elísabet.

„Hver gerir svona? Hversu mikill heigulsháttur? Guð minn almáttugur! Var ekki nóg að láta reka Arnar sem þjálfara? Var ekki nóg að koma óorði á hann sem kennara? Þurfti líka að svifta hann mannorðinu og koma því þannig fyrir að hann gæti aldrei stundað sína ástríðu það er að þjálfa handbolta? Hvernig líður þér, sem skrifaðir bréfið með óstaðfestum ásökunum um samskiptavanda og gerði það að verkum að Arnar bugaðist að lokum?“

Elísabet segir einnig að það stöðuga áreiti sem Arnar virðist hafa orðið fyrir í þjálfarastarfi hans sitji einnig í henni.

„Það var hamast á honum og allskonar dylgjur hafðar í frammi. Hann lá vel við höggi, var einstæðingur, handboltanörd og lifði fyrir að þjálfa og ná árangri með sinn hóp. Lífið var handbolti 24/7. Hann var ekki mikið fyrir að „kyssa rassa“ – og nennti engu „búllsjitti“ svo ég tali nú bara íslensku. Það voru „klaufaleg samskipti“  að segja hlutina umbúðalaust. Já það þótti svo margt óeðlilegt. Það var óeðlilegt að verja svona miklum tíma í að pæla í kerfum, sendingum og hvers konar smáatriðum sem gerðu leikmenn betri. Þá er í lagi að vaða í „manninn“ og allt látið flakka, sögum komið á kreik? En hvað er þetta?“

Þjálfarar fá ekki vinnufrið

Elísabet nefnir að einn fjölmiðill hafi sagt aðförina gegn Arnari foreldraOFBELDI. „Það er nefnilega af sem áður var þegar foreldrar vissu varla af því ef börn þeirra voru í íþróttum. Örfáir komu á leiki og fylgdust með. Í dag er varla þverfótað fyrir mömmum og pöbbum, ömmum og öfum á hliðarlínunni og ekki aðeins á leikjum heldur á æfingum líka. Þjálfarar hafa engan vinnufrið. Það er andað ofan í hálsmálið á þeim og hnefinn steyttur ef „barnið mitt“ fær ekki „rétta“ meðhöndlun. Eigum við ekki að segja þetta gott og reyna að finna milliveginn…,“ spyr Elísabet.

Að lokum nefnir Elísabet heimsókn hennar í leitarmiðstöðina við Bessastaði daginn eftir hvarf Arnars, þar sem hún sá hversu skipulögð og umfangsmikil leitin að honum var. 

„Þarna var valinn maður í hverju rúmi, vakinn og sofinn og blésu okkur fjölskyldunni von í brjóst um að leitin bæri árangur. Þvílíkur hópur. Yfir 150 björgunarsveitarmenn í sjálfboðavinnu leituðu frænda míns dag og nótt og fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Það sem kórónaði þó þessa heimsókn var þegar Guðni forseti og Elíza kona hans komu labbandi frá Bessastöðum með fullt box af hjónabandssælu fyrir leitarfólkið! Þvílíkur forseti  – #minnforseti Þessu mun ég aldrei gleyma. Og heldur ekki því þegar Guðni tók utan um mig þegar ég beygði af.“

Hún segir það þyngra en tárum taki að Arnar sé ekki lengur á meðal okkar.

„Þessi stóra manneskja, magnaði þjálfari og framúrskarandi kennari. Við erum fátækara samfélag eftir missinn. Pössum að svona lagað gerist ekki aftur. Verum vakandi fyrir ofbeldi og einelti af öllum toga, og ekki bara gagnvart börnum heldur líka fullorðnum, því einelti þrífst víða – já og munum að aðgát skal höfð í nærveru sálar – alltaf! Sýnum skilning og umburðarlyndi. Blessuð sé minning elsku Arnars frænda – sem lagði alltaf 100% metnað og væntumþykju í öll sín störf. En kannski var það bara of mikið fyrir suma.“

Ef ein­stak­ling­ar glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir er bent er á Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa sam­band við Píeta-sam­tök­in sem veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti
Fréttir
Í gær

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“