fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Missti 41 árs gamla systur sína úr krabbameini: „Hundurinn Bjartur stóð jafn þétt við bak hennar og hennar nánasta fjölskylda”

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Þriðjudaginn 2. maí 2023 18:57

Arndís og Bjartur voru óaðskiljanleg.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Föstudagurinn 2. febrúar 2018 er dagur sem ég mun aldrei gleyma. Ég vakna upp um miðja nótt við símhringingu, í raun hafði ég svo sem ekki verið alveg sofandi, hafði ekki sofið í nokkra daga, frekar dormað aðeins.

Systir mín hafði nefnilega farið í aðgerð á þriðjudeginum á undan, það átti að setja upp sondu, vélindað var farið að valda henni erfiðleikum og átti hún orðið mjög erfitt með að kyngja mat,‟ skrifað Ástrós Una Jóhannesdóttir á Facebook.

„Aðgerðin reyndist hinsvegar vera líkama hennar ofviða, hann var orðinn þreyttur eftir sex ára baráttu við krabbamein og þann 2. febrúar 2018 lést systir mín hún Arndís Halla, aðeins 41 árs.‟

Arndís sáluga með Bjart sinn.

Elskaði Bjart af öllu hjarta

Ástrós Una hugsar nú um besta vin og félaga systur sinnar, hann hundinn Bjart, sem Arndís Halla sáluga elskaði af öllu hjarta. Hann var henni besti hlustandi og segir Ástrós Una að systir hennar hafi trúað honum fyrir öllu því sem hún vildi ekki leggja á aðra í fjölskyldunni.

„Arndís Halla smitaði jákvæðni og bjartsýni til allra sem fengu að kynnast henni. Hún fór um landið með fyrirlesturinn Mikill hlátur og smá grátur, sem hún byggði á reynslu sinni af baráttunni við krabbameinið. Í fyrirlestrinum talaði hún meðal annars um ,,Team Arndís” en það voru allir hennar ástvinir sem studdu hana í baráttunni á einn eða annan hátt.

Arndís átti ekki einungis mennska liðsfélaga heldur stóð hundurinn Bjartur jafn þétt við bak hennar og nánasta fjölskylda.

Bjartur hafði bæst í fjölskyldu systur minnar árið 2013, hann er afskaplega góður og vel upp alinn hundur af tegundinni Chiuaha. Við elskuðum hann öll en systir mín mest. Hann stóð (ja sat eða lá öllu heldur) þétt við hlið hennar fram á síðasta dag. ”

Bjartur

Dýrmætar stundir

„Segja má að hann hafi aldrei vikið frá henni í erfiðum veikindum hennar. Bjartur var henni líka hvatning til að fara út. Stundum voru göngutúrar í kringum húsið það eina sem heilsa hennar leyfði, það voru henni dýrmætar stundir.

Bjartur hefur því verið ástvinur okkar og einn af fjölskyldunni síðan systir mín dó. Sorgin og söknuðurinn eftir henni fylgir okkur alla daga en minningarnar lifa og er elsku fallegi, góði Bjartur stór hluti minninganna um hana og allan þann kærleika og ást sem hún umvafði þennan litla ljúfa vin sinn allt fram í andlátið. Okkur finnst öllum Bjartur vera hluti af systur minni sem við verðum að vernda og elska eins og hún gerði.

Fljótlega í kjölfar andláts systur minnar flytur Bjartur til mín og dætra minna. ”

Arndís og Bjartur

Deila í fjölbýlishúsi

„Ég er einstæð móðir með þrjú börn og bý í fjölbýli, verandi í minni stöðu hef ég ekki efni á öðru. Eins og núverandi lög eru þarf að fá samþykki 2/3 þeirra sem deila stigagangi eða inngangi. Ég bý í fjölbýlishúsi þar sem eru þrír stigagangar.

Fyrir liggur samþykki meira en 2/3 hluta þeirra sem deila með mér stigagangi en hins vegar er það svo að stigagangarnir þrír deila sameiginlegum inngangi í kjallara.

Einhverjir nágrannar mínir sem deila ekki með mér stigagangi eru óánægðir með veru hundsins Bjarts hjá okkur og telja að þar sem það er sameiginlegur inngangur í kjallara að þá sé ég ekki með leyfi til að halda hann í íbúð minni.

Þrátt fyrir að ég hafi ekki og mun aldrei þurfa að ganga með Bjart inn um kjallarainnganginn til að komast að íbúð minni. Mitt mál hefur ratað víða og er núna statt hjá kærunefnd húsamála, þar sem skera á úr um hvort ég hafi aflað nægilegs samþykkis með því að fá samþykki 2/3 þeirra sem deila með mér stigagangi eða hvort íbúi/ar sem búa í sömu blokk og ég en í öðrum stigagöngum eigi aðild að málinu þrátt fyrir að hundurinn þurfi aldrei að ganga þar um.

Bjartur þarf aðeins að fara um þennan eina stigagang. ”

Lea Rós, dóttir Ástrósar, og Bjartur knúsast í útlilegu

Deilur um frumvarp til breytinga

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp sem Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, leggur fram um breytingar á lögum um fjöleignarhús ásamt sex öðrum þingmönnum Flokks Fólksins og Pírata. Þetta er í annað skiptið sem Inga leggur frumvarpið fram en eins og áður segir snýst það um að rýmka verulega fyrir hunda- og kattahaldi í fjöleignahúsum.

Í dag þurfa gæludýraeigendur að fá samþykki 2/3 íbúðareiganda til að fá að halda dýr í fjöleignarhúsum. Frumvarp Ingu gerir dýrahaldið hins vegar heimilt en húsfélög gætu sett sér sérstakar reglur um gæludýrahald á húsfundum, með samþykki allra íbúa. Aðeins væri hægt að banna dýrahald með samþykki 2/3 hluta íbúa, í einstökum tilvikum. Það er „ef það veldur öðrum íbúum verulegum ama, ónæði og truflunum og eigandi dýrsins neitar að gera bót þar á,“ eins og segir í frumvarpinu.

Ljóst er að margir eru á sömu skoðun og Inga um að mikla réttarbót sé að ræða en á rafrænum undirskriftarlista til stuðnings frumvarpinu  sem stofnaður var í byrjun apríl og stóð til 12. apríl. Söfnuðust 11.344 undirskriftir.

En það eru ekki allir sammála.

Sjá: Astma- og ofnæmisfélagið fordæmir hunda- og kattafrumvarp Ingu Sæland – „Það felur í sér algjöran hugsanafeil“

Óbærileg tilhugsun

„Það er því ekki víst að ég og dætur mínar fáum að hafa elsku litla Bjart hjá okkur áfram. Tilhugsunin um að þurfa kannski að láta hann frá okkur er óbærileg. Ég vil ekki trúa að slík mannvonska sé til. Að nokkur skuli vilja bæta í alla sorgina og söknuðinn sem andlát systur minnar hefur haft á okkur með því að gera allt til að koma í veg fyrir að við getum fengið að elska litla voffann hennar er mér með öllu óskiljanlegt.

Nú hefur Bjartur staðist grunnhundamat Rauða Kross Íslands og er því orðinn heimsóknarhundur á þeirra vegum. Von okkar og markmið er að hann geti hjálpað fleira fólki á svipaðan hátt og hann hjálpaði systur minni.

Arndís var þrautseig og bjartsýn, þess vegna var það í raun ekki fyrr en nokkrum dögum áður en hún lést, sem ég áttaði mig á því að hugsanlega myndi hún ekki vinna baráttuna við krabbann, nú er spurning um hvort ég og dætur mínar muni vinna baráttuna um að fá að hafa Bjart hér hjá okkur. ”

Nóg missa foreldri

Marín Rós dóttir Arndísar Höllu segir það að að vita af Bjarti hjá Ástrós og stelpunum sé eins og að vita af þeim hluta af mömmu sem lifir enn á öruggum stað.

„Að missa foreldri er óbærilegt en Bjartur sat við hlið okkar allra í sorginni rétt eins og hann gerði hjá mömmu í baráttunni við krabbakvikindið. Ég óska ekki bara þess að Bjartur fái að vera áfram á heimili sínu heldur að allir fái jöfn tækifæri til þess að halda gæludýr og upplifa þá gleði og von sem þau geta fært óháð fjárhagslegum burðum.”

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti
Fréttir
Í gær

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“