Fjórtándu og síðustu skákinni í heimsmeistaraeinvíginu milli Ian Nepomniachtchi og Ding Liren lauk með jafntefli nú fyrir stundu. Það þýðir að einvíginu, sem fer fram í Astana í Kasakstan, lauk með jafntefli en báðir keppendur hlutu sjö vinninga. Það þarf þó að útkljá hver hampar heimsmeistaratitlinum og það verður gert í bráðabana með styttri tímamörkum sem hefst kl.9 á morgun, sunnudaginn 30. apríl.
Einvígið hefur verið gríðarlega skemmtilegt og dramatískt. Báðir keppendur hafa sýnt snilldartilþrif en einnig afar slæm mistök í sumum skákanna. Nepomniachtchi hefur haft yfirhöndina í einvíginu og þrisvar sinnum náð forystunni en Ding Liren hefur náð að bíta í skjaldarrendur og jafna metin þrívegis.
Ding Liren var með hvítt í lokaskákinni og tefldi glæfralega. Hann var kominn í talsverð vandræði en fór þá að finna góðar varnaleiðir og tókst svo með herkjum að halda jafnteflinu í lengstu skák dagsins sem varði í tæpar sjö klukkustundir.