Eliza Reid, forsetafrú Íslands, var ein af þeim fjölmörgu sem skellti sér á tónleika Backstreet Boys sem fóru fram í Laugardalshöll í gær, föstudaginn 28. apríl.
Eliza greindi frá afar fallegri sögu á Facebook-síðu sinni eftir tónleikana en það er saga sýrlenska-kanadíska rithöfundarins Danny Ramadan. Danny er fæddur í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, en hann heillaðist ungur af tónlist Backstreet Boys og fór að læra ensku til þess að geta skilið texta hljómsveitarinnar.
Í kjölfar stríðsátakanna í Sýrlandi flúði Danny til Kanada og sló síðar í gegn sem rithöfundur ytra. Rithöfundur sem skrifar á tungumáli Backstreet Boys.
Þannig vildi til að Danny var staddur á Íslandi að kenna á ritlistarnámskeiði Iceland Writers Retreat á sama tíma og átrúnaðargoð hans voru að koma hér fram. Eliza og Sena tóku því höndum saman og sáu til þess að Danny gat upplifað draum sinn, skellt sér á tónleikana og hitt stjörnurnar baksviðs.