fbpx
Miðvikudagur 31.júlí 2024
Fréttir

Jóhannes missti dóttur sína úr ofneyslu: „Ekkert í lífinu er erfiðara“ – Nú verður að bregðast við

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 27. apríl 2023 14:00

Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Vandinn er orðinn miklu stærri og nú verður að bregðast við með markvissum hætti,“ segir Jóhannes Kr. Kristjánsson rannsóknarblaðamaður í pistli á Facebook-síðu sinni í morgun sem vakið hefur talsverða athygli.

Jóhannes Kr. missti dóttur sína, Sigrúnu Mjöll, árið 2010, í kjölfar ofneyslu fíkniefna. Jóhannes hefur talað opinskátt um mál dóttur sinnar en hún var á átjánda aldursári þegar hún lést.

Undanfarna daga hefur mikið verið fjallað um andlát ungs fólks af völdum fíkniefna. RÚV greindi frá því í vikunni að 35 einstaklingar með fíknivanda, fimmtíu ára og yngri, hefðu látist það sem af er ári.

Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, sagði enn fremur við RÚV að hún óttaðist að þessi þróun myndi halda áfram. Óvíst sé hvað liggur að baki.

„Hins vegar þá vitum við að það er mikil aukning í ópíóíðafíkn, sérstaklega hjá þessum yngri hóp. Það er mjög hættuleg fíkn. Þessi sterku verkjalyf, oxycontin og contalgin sem er fyrst og fremst verið að nota á Íslandi, þau eru bara bráðdrepandi.“

Fær sting í hjartað

Jóhannes segist í færslu sinni, sem hann veitti DV góðfúslegt leyfi til að fjalla um, fá sting í hjartað í hvert sinn sem hann heyrir fréttir af andláti vegna ofneyslu fíkniefna. Hugsar hann til dóttur sinnar, sem ávallt var kölluð Sissa, sem lést aðeins 17 ára gömul.

„Það eru að verða komin 13 ár síðan stelpan mín dó og 12 ár síðan ég sagði sögu Sissu og kafaði ofan í heim ungra barna í neyslu fyrir Kastljós. Umræðan í samfélaginu þá var svipuð og nú – kallað var eftir aðgerðum til að bjarga mannslífum,“ segir Jóhannes sem segir allt of sjaldan hlustað á fólkið sem þekkir vanda barnanna.

„Frá því Sissa mín dó hef ég reglulega tjáð mig um málefni ungra vímuefnaneytenda og nauðsyn þess að bregðast við vanda sem bara eykst. Ég hef átt fundi með ráðherrum, þingmönnum og fólki sem vinnur í kerfinu sem á að halda utan um og styðja börnin sem verða utanveltu og feta veg neyslunnar. Mín greining eftir ótal samtöl við fólkið sem vinnur í kerfinu er að þeir sem vinna náið með börnunum eru með hugmyndir sem við ættum að hlusta á og styðja við. Það er bara alltof sjaldan hlustað á fólkið sem vinnur raunverulega með börnunum.“

Kerfið vissi að hann gæti verið með uppsteyt

Jóhannes segir að neysluheimurinn hafi harðnað mikið síðan hann tjáði sig sem mest um þessi mál. Fleiri einstaklingar deyi, neyslan aukist og harðni hraðar. Vandinn sé orðinn miklu stærri og nú verði að bregðast við með markvissum hætti. Hann segir að kerfið virðist gera mannamun eftir því hver það er sem leitar eftir aðstoð.

„Eftir að Sissa dó var mikið haft samband við mig og ég reyndi eftir megni að hjálpa foreldrum barna sem voru að byrja í neyslu við að fá aðstoð og úrræði í kerfinu til að taka á vandanum því þau voru ráðalaus og lentu á lokuðum dyrum. Ég skrifaði bréf til ráðamanna í kerfinu til að reyna að fá aðstoð fyrir börn foreldranna sem höfðu sjálf reynt að fá kerfið til að bregðast við í langan tíma en lítið sem ekkert gerðist. Þegar ég skrifaði undir bréfin fyrir hönd foreldranna brást kerfið við því það vissi að Jóhannes Kr. gat verið með uppsteyt og vesen. Hversu fáránlegt er það?“

Jóhannes segir að kerfið eigi að vinna fyrir alla og ekki gera mannamun.

Stærsta eftirsjáin

Jóhannes segist hugsa um Sissu á hverjum einasta degi og á sumum tímabilum meira en öðrum.

„Til dæmis núna þegar yngsta barnið mitt á að fermast hugsa ég um fermingargjöfina sem Sissa valdi – lestarferðalag með mér á milli Rómar og Parísar. Bara við tvö með bakpoka og ferðin átti að taka viku til tíu daga. Daginn áður en við áttum að fljúga sagði Sissa mér að hún gæti ekki farið í ferðina. Seinna sagði hún mér að hún hefði verið í neyslu á þessum tíma og tekið hana framyfir ferðalagið. Eftir andlátið fann ég minnisbók þar sem hún hafði svarað spurningunni: Hverju sérðu mest eftir í lífinu? Svarið: Að hafa ekki farið í ferðalagið með pabba.“

Jóhannes segir að hann hefði gefið svo mikið fyrir að eiga minningarnar og myndirnar úr ferðalaginu sem aldrei var farið. Kveðst hann vilja gera allt sem í hans valdi stendur til að ekkert foreldri upplifi andlát barnsins síns vegna ofneyslu.

„Og ég vildi óska að ekkert foreldri upplifi það að missa barnið sitt því það er erfiðasta upplifun manneskju. Ekkert í lífinu er erfiðara,“ segir Jóhannes sem efast ekki um að saga Sissu hafi hjálpað mörgum og bjargað mannslífum.

„Það veit ég eftir að hafa fengið bréf frá ungu fólki og hitt ungt fólk sem hefur sagt mér að sagan hennar hafi komið þeim á rétta braut í lífinu. Þetta var ungt fólk sem var stutt á vegi neyslunnar komið.“

Ískaldur raunveruleiki á bakvið hvert andlát

Jóhannes segir að hugsa þurfi lengra fram í tímann en fjögur ár, eða eitt kjörtímabil. Það kosti peninga og taki tíma að hjálpa fólki út úr neyslu og það þurfi að finna leiðir sem raunverulega hjálpa og bjargar mannslífum.

„Í hvert skipti sem einhver deyr vegna ofneyslu koma sjúkrabílar á vettvang og bráðaliðar reyna endurlífgun. Á bakvið hvert andlát er raunveruleikinn kaldur eins og þið getið lesið í skýrslu sjúkraflutningamanna sem reyndu að endurlífga Sissu. Það tókst því miður ekki að endurlífga hana á þeim tíma – en núna – tæpum 13 árum síðar ættum við að vera betur stödd.  Stjórnvöld þurfa að setja á fót hóp fólks sem vinnur náið með börnum í neyslu og heyra þeirra hugmyndir um lausnir. Þessi hópur þarf að byrja strax og vinna hratt því líf ótalmargra er í húfi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Bálreið yfir Brákarborgarfúskinu sem mun kosta skattgreiðendur stórfé – Varað við torfþaki og olli pólitískur þrýstingur klúðrinu?

Bálreið yfir Brákarborgarfúskinu sem mun kosta skattgreiðendur stórfé – Varað við torfþaki og olli pólitískur þrýstingur klúðrinu?
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Veðurstofan segir auknar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu dögum

Veðurstofan segir auknar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu dögum
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Landspítalinn réð konu og braut jafnréttislög

Landspítalinn réð konu og braut jafnréttislög
Fréttir
Í gær

Ferðamaður sem heimsótti Ísland nýlega segir þetta hafa breyst til hins verra frá síðustu heimsókn árið 2015

Ferðamaður sem heimsótti Ísland nýlega segir þetta hafa breyst til hins verra frá síðustu heimsókn árið 2015
Fréttir
Í gær

Íslendingar vinna lengst í Evrópu – Karlar vinna fjórum árum lengur en konur

Íslendingar vinna lengst í Evrópu – Karlar vinna fjórum árum lengur en konur
Fréttir
Í gær

Síbrotamaður braust inn í fjölbýlishús um miðja nótt – Sagðist bara vera að hlýja sér

Síbrotamaður braust inn í fjölbýlishús um miðja nótt – Sagðist bara vera að hlýja sér
Fréttir
Í gær

My Ky Le ófundinn – Ekkert spurst til hans síðan á föstudag

My Ky Le ófundinn – Ekkert spurst til hans síðan á föstudag