Fjölskyldan sem um ræðir er komin með vernd hér á landi og hefur hún búið í umræddum kjallara í um eitt ár.
„Þetta er flókið og erfitt; hér eru engir gluggar og því engin birta. Við vitum ekki hvort það er dagur eða nótt. Loftið er afar þungt og kæfandi og við finnum mikla myglulykt,“ sagði kona sem búsett í íbúðinni.
Þá var bent á það að lofthæðin næði varla tveimur metrum og búseta í kjallaranum brjóti til dæmis gegn lögum um brunavarnir, húsaleigu, lögum um hollustuhætti og byggingarreglugerð. Líklega væri um að ræða mannréttindabrot. Sagðist fólkið sem býr í kjallaranum vera að íhuga að kaupa sér slökkvitæki. „Því maður veit aldrei hvað gerist. Auk þess eru veggirnir bara úr pappa.“
Kveikur fjallaði einnig um fleiri dæmi, til dæmis hús við Holtsgötu og sagði fyrrverandi íbúi í húsinu að íbúar hússins væru í hættu. Þar eru 27 einstaklingar skráðir með lögheimili, mest konur af erlendum uppruna.
„Önnur hæðin og risið, þar eru herbergi sem væri afar snúið að eiga við ef kviknaði í og eldurinn fengi líklega færi á að breiðast út áður en hann uppgötvaðist,“ sagði fyrrverandi íbúi.
Fjölmargir hafa tjáð sig um þáttinn á samfélagsmiðlum og brugðist hart við. Í þeim hópi eru til dæmis fyrrverandi þingmenn og borgarfulltrúi.
Guðmundur Andri Thorsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, segir augljóst af umfjölluninni að greinilega sé til fólk sem leitast við að hámarka arð sinn af eymd annarra.
„Þetta er fólk sem lítur á samborgara sína sem bráð. Þetta er fólk selur aðgang á uppsprengdu verði að geymslum, kústaskápum, háaloftum og kompum án þess að leggja einu sinni í lágmarks kostnað við að láta þetta líta út eins og mannabústaði. Þetta er fólk sem er helsjúkt af græðgi og mannfyrirlitningu. Mannvonskan er alltaf afl í öllum samfélögum en það er mælikvarði á gæði samfélaga hversu ágengt henni verður.“
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi tók undir með Guðmundi Andra. „Allir þingmenn ættu að horfa á þáttinn og fara vinna vinnuna sína og koma húsnæðismálunum í lag,“ sagði hún. Bætti hún við að getu- og áhugaleysi stjórnmálamanna í húsnæðismálum væri miklu stærra vandamál en gráðugir leigusalar.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, sagði undir færslu Guðmundar Andra: „Glæpur gegn fólki, ekkert minna en það.“
Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi þingkona, gerði málið einnig að umtalsefni á sinni Facebook-síðu.
„Í Kveik gærkvöldsins sáum við hrikalegt dæmi um óboðlegar húsnæðisaðstæður fjögurra manna fjölskyldu sem býr í myrkri og myglaðri kolageymslu. Aðstæður sem erfitt er að gera sér í hugarlund en einhver náungi fær samt vel á annað hundrað þúsund krónur á mánuði í húsaleigutekjur fyrir að bjóða upp á þetta. Myndirnar held ég að hafi gengið fram af öllu venjulegu fólki,“ sagði Ólína og bætti við að það væri umhugsunarefni hvernig svona lagað gæti viðgengist.
„Er enginn að fylgja eftir húsnæðis og heilbrigðisreglum þegar húsnæði fer í útleigu? Í þættinum var dæmi um hús sem búið var að hólfa niður í allt of margar íbúðir og þar búa allt of margir án þess að brunaútgangar séu tryggðir eða gætt að almennum heilbrigðisaðstæðum. Þetta hlýtur að varða við lög. Varla getur bara hver sem er gert húsaleigusamning um hvaða mygluholu sem er án þess að nokkur maður kanni aðstæður nánar? Ef svo er þarf að breyta lögum strax,“ sagði hún.