fbpx
Laugardagur 15.mars 2025
Fréttir

Segir sex kvartanir gegn séra Gunnari mega rekja til bílastæðis líkbílsins og að þolendur séu gerendur eineltis

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 19. apríl 2023 16:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Valgerður Jónsdóttir, fráfarandi formaður sóknarnefndar Digraneskirkju var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur á Útvarpi Sögu í gær. Þar sagðist hún hafa staðið í ströngu síðan í byrjun árs í fyrra þegar hún neitaði að taka þátt þegar til stóð að safna saman sögum um meinta ámælisverða framkomu séra Gunnars Sigurjónssonar.

Mikinn styr hefur staðið um Digraneskirkju frá því að sex konur stigu fram og sökuðu séra Gunnar Sigurjónsson um áreitni í þeirra garð. Teymi á vegum Þjóðkirkjunnar komst í kjölfarið að þeirri niðurstöðu að Gunnar hefði í tíu tilvikum gerst sekur um háttsemi sem stríddi gegn reglugerð kirkjunnar um einelti, kynbundna og kynferðislega áreitni og annað ofbeldi. Var hegðun Gunnars sögð ósæmileg, óhæfileg og ósamrýmanleg störfum hans sem prests.

Gunnar lét svo af störfum við prestakallið en af fréttum undanfarið að dæma hélt sóknarnefnd Digraneskirkju enn í þá von að fá hann til baka.

Bitrir kvenprestar og sjálfskipaðir þolendur

Valgerður Jónsdóttir, var formaður sóknarnefndar og vakti hún athygli fyrir því að taka sér stöðu með séra Gunnari og gegn þolendum hans.

Skrifaði hún á Facebook nýlega að enga konu ætti að vígja til prests fyrr en tryggt hefði verið að hún væri búin að vinna úr sinni gömlu biturð. Það ætti engin kirkja að þurfa að sitja uppi með bitran kvenprest. „Það er hættulegt,“ skrifaði Valgerður.

Hún hefur einnig harðlega gagnrýnt áðurnefnt teymi Þjóðkirkjunnar og sagði ömurlegt að verða vitni að því að „sjálfskipaðir“ þolendur og bitrar konur verði að hættulegum gerendum.

Engar ákærur og engir dómar

Valgerður mætti í gær á Útvarp sögu og fór yfir málið. Hún sagði um mál séra Gunnars að til staðar væru bara ásakanir.

„Það eru engar ákærur og það eru engir dómar sem hafa fallið. Það er ekkert saknæmt.“

Valgerður sagðist hafa hikað við að taka við sem formaður sóknarnefndar enda taldi hún að þar væri við ofurefli að etja.

Valgerður lýsti aftur þeirri skoðun sinni að það teymi sem tekur að sér svonefnd EKKO-mál hjá Þjóðkirkjunni sé vanhæft.

„En þetta er algjörlega óhæft batterí sem kirkjuþing hefur sett upp Þetta er algjörlega óhæft batterí til að taka á einu né neinu. Það virðist vera eins og ásetningurinn í upphafi hafi verið að taka séra Gunnar niður. Það er bara svo kýrskýrt, það er svo augljóst í mínum huga.“

Telur að þolendur séu í raun gerendur eineltis

Valgerður rekur það að hún hafi sem kennari, sérkennslufulltrúi og skólastjóri í gegnum árin ítrekað tekist á við eineltismál. Hún hafi því um leið og mál séra Gunnars kom upp séð að þar væri slíkt mál á ferðinni.

„Sá frá upphafi hvað var í gangi og það er hægt að rekja það. Þetta er svo út í hött sem hefur verið gert gagnvart séra Gunnari og fjölskyldu hans, gagnvart okkur í Digranessókn og í Digraneskirkju. Þetta er alveg fáránlegt og út í hött. Það er ekkert löglegt við þetta, það getur ekki verið að það sé hægt að finna þessu lagalega stoð á nokkurn hátt.“

Skoraði á biskup að biðjast afsökunar

Valgerður fór í september á síðasta ári með bréf til Agnesar M Sigurðardóttur biskups. Þar skoraði hún á Agnesi að biðja séra Gunnar, aðstandendur hans og Digranessókn afsökunar á málinu.

Þetta teymi sem hafi rannsakað ásakanirnar í garð séra Gunnars hafi hvorki lögreglu- né dómsvald og telur Valgerður deginum ljósara að þessu teymi hefði aldrei átt að vera falin rannsóknin.

„Aðferðir teymisins hafa verið ósæmandi að öllu leyti frá upphafi þar sem stjórnsýslulög og önnur lög hafa verið margbrotin og ég skoraði sem sagt á biskup Íslands að bjóða séra Gunnar Sigurjónssyni að taka strax við starfi sínu sem sóknarprestur við Digraneskirkju á ný“

Hún hafi eins skorað á biskup að leggja téð teymi niður.

„Þetta er kannski ekki vinsælt að tala svona“

Söfnuðu saman sögum

Valgerður segir áður en mál séra Gunnars kom upp hafi verið gengið manna á milli í kirkjunni með leiðbeiningarblað í því skyni að safna saman sögum. Þessu hafi Valgerður neitað að taka þátt í.

„Þá er bara pjúra einelti sem fer í gang og ég er ekki ein um það að verða fyrir því þar sem það voru fleiri sem vildu ekki taka þátt í þessu.“

Varðandi ásakanirnar í garð séra Gunnars sagði Valgerður að það væri eðli kvenna að bera út sögur. Þetta sé sorglegt að sjá þar sem svona mál eyðileggi fyrir raunverulegum þolendum kynferðisbrota.

Á daginn hafi komið að meint áreitni séra Gunnars hafi falist í því hvernig hann svaraði fólki og tók til orða. Og eins að hann hafi bannað konum að leggja í stæði þar sem líkbíllinn átti að vera.

„Sex sem kvörtuðu undan því“

Menn þurfi að passa sig

Valgerður telur að staðan í samfélaginu sé orðin slík að menn verði jafnvel að passa sig er þeir til dæmis heyra konur ræða um eitthvað á kaffistofum. Hvernig sem þeir bregðist við slíku þá geti viðbrögðin verið túlkuð þeim í óhag.

„Það er ekkert svar oft í boði fyrir karlmanninn innan um konurnar, það er ekkert rétt svar sem hentar konunni og við þurfum bara að læra af þessu. Við þurfum að skoða þetta.“

Valgerður fór einnig yfir fregnir sem borist hafa af því að þolendur séra Gunnars hafi verið hraktir úr starfi, en í lok mars var greint frá því að organista Digraneskirkju hefði verið sagt upp störfum. Við það tilefni lét Sunna Dóra Möller, sóknarprestur í Hjallakirkju, þau orð falla að þar með væri búið að láta „síðasta þolandann fjúka úr Digranesi“

Óljóst var þó hvort uppsögnin væri gild þar sem organistinn hafði virkt veikindarétt sinn áður en til uppsagnarinnar kom.

Sóknarprestur vildi segja upp organista

Valgerður sagði það áhugavert að sjá hvernig fréttir innan úr kirkjunni berast almenningi. Hafi þær gengið á milli sömu miðlanna og því mætti álykta að sömu aðilar hafi leitað til fjölmiðla. Raunin sé sú að unnið hafi verið að skipulagsbreytingum og til staðar hafi verið starfsmenn sem ekki voru að standa sig í vinnu sinni.

Valgerður sagði að það væri vissulega athyglisvert að sá hversu margir fara í veikindaleyfi þegar stefnir í starfslok en það sé víst einhver tíska í dag, sem ekki tíðkaðist hér áður.

Varðandi organistann þá hafi sú uppsögn verið að ósk nýs sóknarprests sem hafi viljað aðrar áherslur í tónleikahaldi.

Arnþrúður sagðist þá hafa haft veður af því að organistinn sem sé í sex mánaða veikindaleyfi hafi verið að rukka persónulega fyrir sína þjónustu í staðinn fyrir að peningurinn rynni til kirkjunnar.

Valgerður sagði að þessi mál sem Arnþrúður nefndi væru hjá stéttarfélögum og lögfræðingum og muni fara sína leið þar. Það sé erfitt að fara út í smáatriði hvað varði starfsmannamál.

Metoo sé nýmarxismi og eigi ekkert erindi við kristni

Varðandi ummælin á Facebook sem nefnd voru til sögunnar hér að ofan sagði Valgerður að þar hafi hún verið að lýsa síum skoðunum.

Hún bætti svo við:

„Þér að segja þá höfum við aldrei fengið formlega að vita hverjir þolendur, innan gæsalappa, gunnars voru. En ég hef miklar efasemdir vegna minna fyrri starfa og svo framvegis, ég hef mjög miklar efasemdir um að það sé hægt að skilgreina þessar konur sem þolendur og þær taka það rosalega nærri sér að ég sé ekki tilbúin að taka undir það. Því þær eru bara búnar að vera í 15-16 mánuði rosalegir gerendur í eineltismálum, eins og ég skilgreini það. Allt sem ég segi er bara mín skoðun og ég má alveg hafa þessar skoðanir.“

Valgerður vísar til áramótaávarps Agnesar biskups árið 2018 þegar hún hvatti kvenpresta til að opna sig um reynslu sína af áreitni og kynbundnu ofbeldi.  Þetta hafi orðið upphafið af þessu öllu og þarna hafi biskup hvatt kvenpresta til að taka þátt í metoo-hreyfingunni.

Valgerður segir metoo-byggja á nýmarxisma og slíkt eigi ekkert erindi við kristni.

Konur eigi að hætta að líta á sig sem fórnarlömb

Varðandi ummæli sín um bitra kvenpresta segir Valgerður að hún líti svo á að kvenprestar hafi gengið í gengum áföll og ekki unnið úr þeim. Þetta leiði til biturðar sem svo leiði til fórnarlambshugsunar.

Metoo hreyfing byggir á því að fólk upplifi sig sem fórnarlömb. Málið er að öll þessi nálgun gerir svo lítið úr konum“

Vill Valgerður að konur hætti að líta á sig sem fórnarlömb. Eins setur hún spurningarmerki við skilgreiningu Þjóðkirkjunnar á þolendum. Svo virðist sem að Valgerður gæti sjálf sent inn ósanna sögu og fengi þá að kalla sig þolanda alveg sama hver sannleikurinn væri.

Hún tekur þó fram að hún styður raunverulega þolendur sem hafa lent í alvarlegu ofbeldi og vill að þau, karlar eða konur, fái þá þjónustu sem þau þurfi til að vinna úr sínum málum.

Nú hefur verið kjörin ný sóknarnefnd eftir fund sem haldinn var í Digranessókn í gærkvöldi. Þar var þeim aðilum sem Valgerður hafði lagt til að fengju kjör hafnað og nýir kosnir í þeirra stað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“