Breski sjónvarpsmaðurinn Piers Morgan hefur litla samúð með málstað samtaka sem kalla sig Just Stop Oil, en fulltrúar þeirra hafa tekið upp á ýmsu undanfarna mánuði.
Nú síðast ruddist 25 ára gamall karlmaður, Edred Whittingham, inn í The Crusible-höllina í Sheffield um helgina þar sem heimsmeistaramótið í snóker fór fram. Stökk hann upp á snókerborðið og hellti gulu dufti yfir snókerborðið í leik á milli Robert Milkins og Joe Perry.
Viðburðurinn var í beinni sjónvarpsútsendingu í Bretlandi og vildu samtökin með þessu vekja athygli á málstað sínum. Undanfarna mánuði hafa samtökin tekið upp á fleiri heimskupörum, meðal annars var kartöflumús kastað á málverk Monet í Berlín og köku kastað í andlitið á vaxstyttu af Karli Bretakonungi.
Piers Morgan skrifaði kröftugan pistil um málið á vef The Sun og dró ekkert undan eins og honum einum er lagið.
„Það sem stuðaði mig mest var ekki endilega að sjá Wittingham krjúpa á borðinu og öskra eitthvað út í appelsínugula þokuna sem hann hafði myndað. Heldur var það glottið á andlitinu á honum þegar hann var leiddur í burtu. Á þeim tímapunkti hefði ég viljað sjá einhvern taka eins og 15 rauðar snókerkúlur og troða þeim ofan í kokið á honum.“
Morgan segir að af mörgum tilgangslausum gjörningum samtakanna að undanförnu hafi þessi um helgina virst einna mest tilgangslaus.
„Ég myndi veðja öllum peningunum sem Elon Musk á að að ekki einn einasti áhorfandi í The Crucible, eða einhver af þeim milljónum sem horfði heima hjá sér, hafi hugsað með sér þegar þessi fáviti eyðilagði skemmtunina: „Gott hjá þér. Þessi samtök ætla ég að styðja“.
Segir Morgan að gjörningur eins og þessi sé líklegri til að afla sér óvinsælda en vinsælda því mótmælandinn sé ekki að koma neinum skilaboðum á framfæri. Þá hafi mótmælandinn ungi skemmt góða kvöldstund hjá þeim sem eiga það síst skilið; venjulegu bresku verkafólki sem horfir á snóker sér til skemmtunar.
Hann veltir svo fyrir sér málstað samtakanna Just Stop Oil, en samtökin hafa sagt að þeir eina markmið sé að bresk yfirvöld stöðvi öll frekari áform um olíu-, kola- og gasvinnslu. Samtökin muni ekki hætta fyrr en það muni gerast.
Piers Morgan klórar sér í kollinum yfir þessu.
„Fulltrúar þessara samtaka hafa ekki hugmynd um hvað ætti að koma í staðinn nema eitthvað algjörlega ópraktískt og eitthvað sem myndi setja þjóðfélagið á hausinn.“
Hægt er að lesa pistil Piers Morgan hér.