Par á fertugsaldri, þau Guðmundur Þór Ármannsson og Erna Ósk Agnarsdóttir, hafa verið ákærð fyrir stórfellt fíkniefnabrot en vorið 2021 eru þau sögð hafa sótt og tekið á móti rúmlega 340 g af nær hreinu metamfetamíni sem héraðssaksóknari telur hafa verið ætlað til söludreifingar í ágóðaskyni.
Í ákæru segir að fíkniefnin hafi komið með póstsendingu sem stíluð var á aðra konu. Samkvæmt frétt rúv er þar um að ræða móður Guðmundar. Hafi þau Guðmundur og Erna útbúið falsað umboð frá konunni þess efnis að Erna hefði heimild til að sækja allan póst hennar. Framvísaði Erna hinu falsaða umboði og sótti sendinguna með fíkniefnunum. Átti þetta sér stað í afgreiðslu Póstsins í Mjóddinni. Afhenti hún sendinguna Guðmundi í strætisvagni á leið að heimili hans. Þar handtók lögregla parið, segir í ákæru. Var umslagið með fíkniefnunum þá í fórum Ernu.
Héraðssaksóknari krefst þess að þau Guðmundur og Erna verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Krafist er upptöku á metamfetamíninu og öðrum fíkniefnum sem fundust í fórum parsins.
Parið hefur komið við sögu lögreglu áður en Guðmundur var dæmdur í 11 mánaða fangelsi árið 2020 fyrir ýmis fíkniefnabrot. Árið 2017 ræddi Erna við fjölmiðla um innrás sérsveitar lögreglustjóra inn á heimili þeirra. Sagði hún sérsveitina hafa sýnt Guðmundi, sem ekki veitti neina mótspyrnu, óþarfa harðræði og beint byssu að fimm ára dóttur þeirra.
Sagðist Erna ætla að kæra yfirvöld vegna málsins en DV er ókunnugt um framgang málsins eftir það.
Málið gegn Guðmundi og Ernu verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 27. apríl næstkomandi.