Tveir menn vopnaðir hamri og kúbeini frömdu vopnað rán í verslun í Kópavogi í gærkvöldi.
Ruddust þeir inn í verslunina og beittu starfsmann ofbeldi sem haldið var niðri meðan að mennirnir tóku peninga úr peningakassa verslunarinnar.
Að sögn lögreglu hlaut starfsmaðurinn áverka í andliti eftir árásina og er málið nú í rannsókn hjá lögreglu.
Lögreglu var tilkynnt um meðvitundarlausan einstakling eftir hópslagsmál í Hafnarfirði í gærkvöldi. Sá var fluttur á slysadeild til frekari aðhlynningar, með meðvitund en þó með áverka.
Lögregla svo fékk tilkynningu um mikil læti frá aðilum á mótorhjólum í hverfi 105 í gærkvöldi. Stuttu síðar var tilkynnt um hópslagsmál þar sem nokkrir væru að lemja einn. Lögregla fór á vettvang en enginn fannst á vettvangi.
Lögreglu í umdæmi lögreglustöðvar 4, sem sinnir Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti og Mosfellsbæ, var tilkynnt um tvo menn með lambhúshettur og hníf vera að hlaupa á eftir ungum dreng.
Mennirnir náðu honum ekki en þegar lögregla kom á vettvang var ekkert að sjá og enginn sem tilkynnti að hafa lent í þessu.