Skoski ofurlanghlauparinn, Dr. Joasia Zakrzewski svindlaði í 80 kílómetra maraþoni sem fram fór í Bretlandi þann 7. apríl síðastliðin. Umrætt hlaup, GB Ultras, var á milli borganna Manchester og Liverpool og er talið að Zakrzewski hafi þegið far með bifreið um 4 kílómetra af leiðinni.
Í frétt BBC kemur fram að þetta sjáist greinilega með því að skoða gögnin á örflögu sem Zakrzewski var með á sér eins og þátttakendum er skylt. Þar sést að um tíma ferðaðist hún á hraða sem nemur 58 km/klst. Til samanburðar komst Usain Bolt mest á 43.99 km/klst þegar hann setti heimsmet sitt í 100 metra hlaupi.
Málið þykir hið undarlegasta enda er Zakrzewski þekktur langhlaupari. Hún er handhafi fjölmargra landsmeta í Skotlandi og setti meðal annars heimsmet í febrúar þegar hún hljóp 410 kílmóetra á tveimur sólarhringum.
Með svindlinu á Zakrzewski að hafa grætt um 25 mínútur í hlaupinu og það dugði henni til landa bronsinu í keppninni.
Þegar málið komst upp þá var hinn meinti svikahrappur þegar dæmd úr leik og segir í frétt BBC að hún hafi verið samstarfsfús við mótshaldara. Ekki er ljós hvaða afleiðingar málið hefur fyrir feril Zakrzewski.