Haraldur Ingi Þorleifsson, frumkvöðull, stofnandi Ueno og fyrrverandi starfsmaður Twitter, varar við heldur skuggalegri þróun á Twitter-síðu sinni.
Hann segir að við séum á leið í einskonar gervigreindarvopnakapphlaup inn í heim sem ekkert okkar vill. Þróun gervigreindar hefur verið hröð á undanförnum árum og hafa menn eins og Elon Musk, sem Haraldur Ingi kannast vel við, varað við því sama.
Í færslu á Twitter-síðu sinni segir Haraldur Ingi:
„Þetta mun gerast án nokkurrar yfirsýnar, án reglugerða, án opinberra skoðanaskipta og án áætlunar um hvað við gerum í kjölfarið. Stjórnmálamenn verða að sameinast um það að hægja á þessari þróun,“ sagði hann í færslu sinni á Twitter í gær sem vakti talsverða athygli.
Eins og fyrr segir hefur Elon Musk, eigandi Teslu, SpaceX og Twitter, varað ítrekað við þessari þróun. Það gerði hann síðast á dögunum í viðtali við CNN. Gekk hann svo langt að segja að gervigreindin gæti gengið að siðmenningunni dauðri.
Þá kallaði hann eftir því, ásamt öðrum frumkvöðlum úr tækniheiminum, að sex mánaða hlé yrði gert á framþróun tækninnar á meðan menn ráða ráðum sínum.
Musk hefur kallað eftir því að eftirlitsstofnun verði komið á fót og hún fái það hlutverk að kalla saman aðila úr þessum geira. Í kjölfarið verði hægt að setja viðeigandi reglur. Mikilvægt sé að bregðast skjótt við því um leið og gervigreindin „hefur tekið stjórnina“ verði of seint að setja lög og reglur.
We’re about to AI Arms Race ourselves into a world nobody wants.
And this will happen with no oversight, no regulation, no public debate, and no plan for the incredible fallout.
Politicians need to unite across divides to slow down the process.
— Halli (@iamharaldur) April 18, 2023