Eftir því sem greiningarfyrirtækið Molfar, sem fylgist með stórbrunum í Rússlandi, urðu 75 stórbrunar þar í landi í mars á þessu ári. Til samanburðar voru aðeins 21 stórbrunar í Rússlandi í mars 2022.
Molfars segir að á síðustu mánuðum hafi verið greinileg þróun hvað varðar fjölda stórbruna þrátt fyrir að lítið sé fjallað um þá í rússneskum fjölmiðlum.
„Það virðist sem rússneskir fjölmiðlar fjalli ekki svo mikið um þessa atburði eins og áður og þegar þeir gera það, þá sleppa þeir mikilvægum atriðum eða draga úr tjóninu,“ sagði Daria Verbytska, sérfræðingur hjá Molfar, í samtali við Forbes Magazine.
Á síðasta árið urðu tæplega 25% fleiri stórbrunar en 2021. Þetta kemur fram í tölum frá rússneskum yfirvöldum. Eftir því sem segir í ársskýrslu brunamálayfirvalda þá eru reykingar, ógætileg meðferð elds og strákapör helstu ástæður eldsvoða í Rússlandi. Íkveikjur eru í fjórða sæti og segja yfirvöld að íkveikjum hafi fækkað á síðasta ári miðað við 2021.
Eru Rússar í alvöru orðnir óvarkárari en áður þegar þeir reykja eða býr eitthvað annað að baki öllum þessum eldsvoðum? Þessu hefur Molfar reynt að svara.
Sérfræðingar Molfar telja að hugsanlega séu skemmdarverk, sem séu framin af tveimur ólíkum hópum, stór ástæða fyrir þessari aukningu eldsvoða. Annar hópurinn er rússneska andspyrnuhreyfing sem kveikir hugsanlega í byggingum til að veikja stjórnina í Kreml. Hinn hópurinn er hugsanlega úkraínskir sérsveitarmenn eða bara langdrægar árásir úkraínska hersins.
Úkraínsk yfirvöld neita því að úkraínskir hermenn séu að störfum í Rússlandi en í desember sagði Volodymyr Zhemtjugov, leiðtogi Úkraínumanna á hernumdum svæðum í austurhluta Úkraínu, að hann vissi um aðgerðir úkraínskra hermanna í Rússlandi. Hann sagði að úkraínskir hermenn hefðu þó varla ráðist á verslunarmiðstöðvar, skotmörk þeirra væru hernaðarlegs eðlis. Sú staðreynd að verslunarmiðstöðvar og lagerbyggingar brenni í Rússlandi megi líklega rekja til rússneskrar andspyrnuhreyfingar.
En það er þriðji möguleiki í stöðunni. Molfar segir að Úkraínumenn séu með háleynilegt verkefni í gangi sem heiti „Svarti kassinn“ og hugsanlega sé hægt að finna skýringuna á öllum þessum eldsvoðum þar. Úkraínski herinn hefur skýrt frá verkefninu á heimasíðu sinni.
Úkraínumenn segja að verkefnið sé fjármagnað með hópfjármögnun samtakanna Come Back Alive Foundation sem hafa að sögn safnað einni milljón dollara til verkefnisins. Í tilkynningu frá samtökunum í október sögðust þau hafa keypt og afhent Úkraínumönnum útbúnað sem gæti skaðað sóknargetu rússneska hersins. Kyrylo Budanov, yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar, sagði við það tilefni að ekki væri hægt að skýra frá smáatriðum varðandi samvinnuna en árangur þess myndi án efa sjást á vígvellinum. „Samkvæmt útreikningum okkar hefur verkefnið, sem við köllum „Svarta kassann“, valdið tjóni upp á milljónir dollara í Rússlandi,“ sagði hann.
Sérfræðingar Molfar segja tengsl á milli þess hvenær „Kassinn“ var tekinn í notkun og skyndilegrar fjölgunar eldsvoða í Rússlandi.
En þá er spurningin auðvitað: Hvað er í kassanum?
Ekki er vitað, opinberlega, hvað er í honum en Come Back Alive Foundation safnar núna fyrir nethernaði gegn Rússlandi og kannski er svarið við skammhlaupum og því um líku, í tengslum við rússnesku eldsvoðana, að finna þar. Samtökin safna einnig peningum fyrir drónum, fjarskiptakerfum og herökutækjum svo það er ekki víst að kassinn sé vopn til að nota við netárásir.
Það er því ekki vitað opinberlega hvað er í kassanum en ljóst er að stórbrunum hefur fjölgað mikið í Rússlandi.