Samkvæmt heimildum DV hafa íbúar Seljahlíðar, sem er öldrunarheimili og þjónustukjarni í Hjallaseli í Reykjavík, orðið fyrir óþægindum vegna fyrirferðar sumra leigjenda í húsinu sem eiga við fíknivanda að stríða.
Félagsbústaðir tóku yfir rekstur Seljahlíðar árið 2016 en Félagsbústaðir eru óhagnaðardrifið hlutafélag alfarið í eigu Reykjavíkurborgar. Seljahlíð er blanda af hjúkrunarheimili og þjónustuíbúðum. Nokkrum skjólstæðingum félagsþjónustunnar hefur verið komið fyrir í húsnæðinu líka.
Sagt er að aldraðir íbúar þurfi stundum að flýja matsalinn í Seljahlíð vegna hávaða og ógnandi hegðunar af hálfu yngri íbúanna. Maður sem þarna býr hefur margoft sýnt af sér ógnandi hegðun í hverfinu og verið á ferðinni með barefli, brotið rúður í bílum og komið inn á hjúkrunarheimilið með þýfi og stolin reiðhjól.
Þessi blöndun á íbúum, óreglufólki og öldruðum, sætir gagnrýni. Þykir einnig sérkennilegt að reykingar eru leyfðar á herbergjum og eru nokkrir íbúar sagðir reykja í herbergjum sínum. Félagsbústaðir reka bar í fjáröflunarskyni í Seljahlíð hálfsmánaðarlega og er sagt að það sé óþægileg freisting fyrir suma íbúana.
DV fékk þau svör frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar að Reykjavíkurborg reki 20 hjúkrunarrými í Seljahlíð og reksturinn fellur undir Velferðarsvið. Ekki hefur borist svar við fyrirspurn um hvort Velferðarsvið þekki til vandamála vegna ógnandi hegðunar sumra yngri íbúa í Seljahlíð.