Margir sem virkir eru í baráttu hinsegin fólks segja að bakslag hafi orðið í mannréttindabaráttu þess stóra og litríka hóps. Lýsi það sér ekki síst í andstöðu við mannréttindi trans fólks. Meint transfóbía er sögð vaða uppi, jafnvel meðal samkynhneigðra. Eldur Ísidór, samkynhneigður maður sem er stofnandi Samtakanna 22 – Hagsmunasamtaka samkynhneigðra, amaðist við samningum um fræðslu Samtakanna 78 í grunnskólum, í grein sem hann birti í Morgunblaðinu þann 11. apríl. Þar segir meðal annars:
„Í tilfelli sveitarfélaga er greitt fyrir fræðslu í skólum, en sveitarfélögin hafa ekki hugmynd um hvað er verið að kaupa. Þau hafa ekki hugmynd um hvernig stendur til að „fræða“ börnin í skólunum.
Ég hef öruggar heimildir fyrir því að sveitarstjórnarfólk hafi beðið um að fá að sjá fræðsluefnið sem á að nota í skólunum, áður en samningar eru undirritaðir. Það hefur ekki gengið eftir sem skyldi.
Þegar ég kom út úr skápnum fyrir um 25 árum tók ég þátt í aktívisma sem sneri að því að unglingar fengju vitneskju um samkynhneigð og ólík fjölskylduform samhliða kynfræðslunni.
Eldur segir að umdeildar hugmyndir kynjafræðinga hafi ratað inn í hinseginfræðsluna:
Aldrei hefði okkur dottið í hug að umdeildar hugmyndir kynjafræðinga myndu ryðja sér braut inn í skólana okkar og þær kenndar sem vísindalegar staðreyndir. Að börnum yrði kennt að líffræðilegt kyn ákvarði ekki kyn þitt, heldur einhver „tilfinning“ innra með þér. Sú tilfinning kallast á trúmáli kynjafræðinga „kynvitund“.“
Öllu meiri athygli vakti Moggagrein grunnskólakennarans Helgu Daggar Sverrisdóttur sem spurði hvort Samtökin 78 gerðust brotleg við barnaverndarlög með fræðslu sinni. Helga skrifaði:
„Ég tel það særandi og móðgandi að segja barni að það sé kannski í öðrum líkama. Sé ekki það kyn sem það fæddist. Að barnið sé strákur, án lims, en ekki stelpa sem er þvert á líffræðilega staðreynd. Barn hefur ekki þroska, getu eða þor til að mótmæla slíku. Sennilega á það við í gegnum leik- og grunnskólann. Það er vanvirðandi háttsemi við barn og foreldra þess að halda því fram að heilbrigðisstarfsfólk geti sér til um kyn barnsins við fæðingu.“
Helga sagði ennfremur:
„Að bera lygar á borð fyrir börn sem geta ekki varið sig, farið í gagnrýna umræðu og svarað fræðsluaðila er vanvirðandi háttsemi, særandi og móðgandi. Börn hafa ekki þekkingu og hafa ekki skoðað aðrar hliðar málaflokksins eins og nauðsynlegt er til að svara fræðsluaðilum transsamtakanna um transmálaflokkinn. Samtökin hafa haldið fram að börn séu í sjálfvígshættu fái þau ekki viðeigandi meðferð við kynvanda sínum. Engar rannsóknir styðja þann málflutning og er börnum beinlínis hættulegur. Alveg ljóst er að ef samtökin ræða þetta í fræðslunni stefna þau heilsu barna í hættu.“
Kennarasamband Íslands sá sig knúið til að bregðast við skrifum kennararns með harðorðri yfirlýsingu. „Hvers kyns mismunun, svo sem á grundvelli kyns, kynþáttar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar, sem lítilsvirðir eða misbýður einstaklingi eða hópi sem fyrir henni verði, verður ekki liðin,“ sagði þar og var minnt á jafnréttisáætlun sambandsins gegn mismunun. Viðhorf Helgu eru hörmuð og mikilvægi hinsegin fræðslu fyrir kennara áréttað. Ennfremur segir:
„Samtökin ’78 hafa um langt skeið verið samstarfsaðili skóla þegar kemur að vinnu gegn hvers kyns mismunun barna og ungmenna. Við hörmum það viðhorf sem fram kemur í umræddri grein og erum þess fullviss að íslenskir kennarar fylgja jafnréttisáætlun okkar og vinna að hagsmunum allra barna og gegn hvers kyns fordómum. Þar eru fulltrúar Samtakanna ’78 öflugir liðsmenn í baráttunni, íslenskum ungmennum til heilla.“
„Þetta er fólk sem veit ekkert um hvað það er að tala. Ég átta mig ekki á hvaðan þetta kemur nema þá helst frá vanþekkingu og fordómum,“ sagði Daníel E. Arnarson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78, í viðtali við Morgunblaðið. Sagði hann skoðun Helgu endurspegla ákveðna herferð gegn trans fólki sem færst hafi í vöxt undanfarið. „Þetta kemur bara frá vanþekkingu og transfóbíu. Allt fræðsluefnið okkar er opinbert á vefnum Ö til A. Við erum heiðarleg og með allt opinbert.“
Sagði hann grein Helgu virðast þjóna þeim tilgangi að skapa tortryggni. „Auðveldasta leiðin til að gera það er að segja að einhver sé að fela eitthvað eða að boða eitthvað á skjön við það sem þau segja opinberlega.“ Daníel sagði ennfremur:
„Við eigum öll rétt á okkur og eigum að fá að blómstra eins og við erum. Við [Samtökin ’78] erum ekki að segja neinum hvernig þau eru. Raunveruleikinn er sá að þarna eru einstaklingar sem eru trans, sem eru kynsegin og við erum einfaldlega að endurspegla samfélagið.“
Baráttu- og trans konan Arna Magnea Dranks birti grein um málið á Vísir.is sem hefur vakið athygli. Magnea minnir á að tjáningarfrelsi veiti fólki ekki leyfi til að segja hvað sem er og ákveðin orðræða sé ólögleg samkvæmt lögum.
„En þegar lögum er ekki fylgt og afleiðingar haturs orðræðunnar er nánast engin, þá er auðvelt að áætla sem svo að tjáningarfrelsinu sé engar skorður settar. Þennan vagn hoppa þau svo á sem hafa sem hæst í fullyrðingum sínum að trans fólk sé hættulegt.“
Arna spyr hvers vegna fólk sjá sig knúið til að lýsa yfir hættu af trans fólki, trans fólk sé í hæsta lagi 1 til 2 prósent af heimsbyggðinni. Hún spyr hvar ógnin af trans fólki sé. Hún blandar sér í umræðuna um þátttöku trans kvenna í íþróttum:
„Margir lesa um að trans fólk, aðallega verið að ræða um trans konur í þessu sambandi, muni taka yfir öll verðlaun á heimsmeistaramótum og ólympíumótum ef ekkert er að gert. Aftur vil ég benda á að við erum að tala um brotabrot af heildarmannfjölda og litlar sem engar líkur að trans konur séu að fara að dominera íþróttaviðburði heimsins. Fyrir utan það að vísindin hafa sýnt fram á að trans konur hafa enga yfirburði gagnvart öðrum konum (nefndar sis konur héðan í frá) eftir að hafa verið í hormónameðferð í ár eða lengur. Hvað varðar yfirburði í íþróttum þá er það staðreynd að fólk kemst áfram vegna meðfædda eiginleika sem má rekja til erfða og jafnvel líffræðilegra frávika. T.d. framleiðir Michael Phelps sundkappi af náttúrunnar hendi mun minna af mjólkursýru en meðalmanneskjan og hefur líkamsbyggingu (langa handleggi, langa fótleggi) sem nýtast vel í sundi. Engum dettur í hug að segja að hann, vegna líffræðilegra frávika, ætti ekki að taka þátt í keppnum. Svo má ræða um Brittney Griner sem er 2.06 metrar á hæð, langt yfir meðalhæð bæði karla, kvenna og kvára en engum dettur í hug að banna henni að spila körfubolta þrátt fyrir að búa yfir líffræðilegum yfirburðum þegar horft er til heildarinnar. Nei það er ráðist á trans konur, sem í flestum tilfellum þora oftast ekki að stunda íþróttir til að byrja með vegna fordóma, og þær sakaðar um að vera ógn við aðrar konur. En ógnin er engin nema í hugum þeirra sem vilja sjá ógn þar sem engin er.“
Arna bendir á að trans konur hafi haft rétt til að keppa á öllum alþjóðlegum stórmótum undanfarin ár og ekki ein einasta trans kona hafi unnið til verðlauna á þeim í einstaklingsgreinum.
Hún greinir frá því að ofbeldi gegn trans fólki hafi aukist mjög mikið í Bretlandi undanfarið. Fólk sem trúi því að trans fólk sé af hinu illa ali á hatri gegn því. „UN Women gaf nýlega út að samkvæmt þeirra rannsóknum eru trans konur fjórum sinnum líklegri að verða fyrir alvarlegu ofbeldi en sis konum. Nauðganir og morð á trans konum fer einnig fjölgandi og ef það er sett í hlutfallslegt samhengi, þá eru trans konur álíka stór hluti mannkyns og náttúrulega rauðhært fólk með blá augu. Ég er viss um að það þætti frétt ef um 400 rauðhærðir einstaklingar með blá augu væru myrtir á hverju einasta ári, en lítið er rætt um þessi morð í fjölmiðlum og þeir sem þau fremja nást sjaldnast og enn sjaldgæfara er að þeir fái dóm sem hæfir glæpnum,“ segir Arna sem víkur síðan að mýtunni um karlmanninn sem reynir að koma sér inn í kvennarými til að brjóta af sér:
„Svo er það hin mýtan, um „karlinn“ sem vill gera allt sem þeir geta til að komast inn í kvennarými. Þetta er auðvitað algjörlega fáránlegt og gerir lítið úr þeim ótal rannsóknum sem hafa sýnt fram á að það að vera trans er líffræðilegt frávik, svipað og fæðast örvhentur og trans fólk er nákvæmlega það sem það segist vera, enda hefur alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ásamt öllum helstu sérfræðistofnunum á svið læknavísinda og geðheilbrigðisvísinda gefið það út að það að vera trans er ekki geðsjúkdómur en ef hið líffræðilega frávik sé ekki meðhöndlað á viðeigandi hátt, valdi það kynama sem geti leitt til geðrænna vandamála á borð við þunglyndi og sjálfskaðandi hegðunar.“
Arna bendir á að karlmenn sem vilji nauðga séu í 99% tilvika gagnkynhneigðir karlmenn. Rotin epli finnist meðal trans fólks eins og annarra en ekki hvarfli að neinum að stimpla alla gagnkynhneigða karlmenn sem afbrigðilega eða nauðgara.
Hún segir að raddir öfgafólks hafi náð að sá fræjum efa og ótta í hugum þeirra sem þekkja ekki til trans fólks en láti glepjast af áróðrinum.
Arna segir að við séum ekki kynið okkar heldur við sjálf, hvert og eitt einstakt og ólíkt öðrum. Ekkert geti breytt því að við erum það sem við erum og vorum sköpuð til að vera. Hins vegar sé hægt að gera líf fólks erfiðara með fáfræði, fordómum og hatri. Arna segir:
„Er ekki komin tími til að vakna og átta sig á að ógnin sem er verið að selja ykkur er tálbeita frá þeim raunverulegu ógnum sem steðjar að okkur öllum og hætta að gefa röddum hatursins endalaust svigrúm til tjáningar.
Það rökræðir enginn við rætið innræti.“