Í bænum Grand Forks í Norður-Dakóta voru íbúarnir ánægðir með að fá ný störf í bæinn en byggja átti stóra kornmyllu á 122.000 hektara jörð sem kínversk fyrirtæki hafði keypt nærri Grand Forks herflugvellinum. En skyndilega byrjuðu dularfullar upplýsingar að koma fram um kaup Kínverjanna.
Þessar upplýsingar þóttu svo dularfullar að bæjarstjórinn greip í neyðarhemilinn og allar áætlanir Kínverjanna voru settar á ís.
Jörðin er aðeins 20 km frá herflugvellinum sem er einn mikilvægasti herflugvöllur Bandaríkjanna. Á tímum kalda stríðsins átti að skjóta kjarnorkusprengjum þaðan ef Sovétríkin gerðu árás. Núna er herstöðin notuð til að senda Global Hawk dróna á loft og frá herstöðinni sinnir herinn samskiptum við gervihnetti sína.
Kínverska fyrirtækið, sem heitir Fufeng Group, hefur frá upphafi haldið fram sakleysi sínu í málinu að sögn Jótlandspóstsins. Það er með höfuðstöðvar í Shandong og er þekkt fyrir að framleiða efni sem eru notuð í dýrafóður. Rekstrarstjóri fyrirtækisins, Eric Chutorash sagði í samtali við CBS News að hann geti ekki ímyndað sér að nokkur starfsmaður fyrirtækisins muni stunda njósnir.
En flugherinn telur að með því að staðsetja sig þarna geti Kínverjar hlerað samskipti herstöðvarinnar og komið þeim upplýsingum áfram til Kína.
Útlendingar eiga um 3% af öllum landbúnaðarjörðum í Bandaríkjunum og af þeim eiga Kínverjar tæplega 1% af þeim jörðum sem eru í höndum útlendinga. Þetta eru tölur frá 2021.