Landsmenn lentu margir í því um helgina að hundraðfaldar upphæðir voru millifærðar af kortum þeirra eftir dálítil viðskipti víðsvegar, til dæmis á Bæjarins bestu og í Bónus. Ástæðan fyrir þessum truflunum eru þær breytingar að aukastafir íslensku krónunnar voru fjarlægðir. Greiðslukortafyrirtækið Rapyd hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins, þar sem segir:
„Vegna breytinga sem gerðar voru hjá alþjóðlegu kortasamtökunum um helgina þar sem aukastafir íslensku krónunar voru fjarlægðir birtist hluti þeirra færslna sem gerðar voru hjá íslenskum söluaðilum með Mastercard korti rangar núna í morgun. Leiðrétting hefur þegar verið send til Mastercard og staða hjá korthöfum verður leiðrétt sem fyrst. Rapyd harmar óþægindin sem þetta hefur haft í för með sér fyrir hlutaðeigandi.“