Augljóst var að Kim Kliver og Rune Dahl Nilsson, sem komu fram á fréttamannafundinum fyrir hönd lögreglunnar, voru djúpt snortnir og ekki laust við að tár læddust fram á hvarm þeirra og annarra.
Til stóð að fréttamannafundurinn hæfist klukkan 15 að dönskum tíma en honum var frestað um nokkrar mínútur vegna nýrra vendinga í rannsókn málsins. Þegar Kliver og Nilsson komu síðan á fundinn um 10 mínútum síðar fluttu þeir fréttamönnum, og dönsku þjóðinni, þau gleðitíðindi að hún hefði fundist á lífi. Hún fannst rétt áður en fréttamannafundurinn hófst.
Kliver og Rune vildu ekki skýra frá hvaða kærur bíða hins handtekna en hann verður færður fyrir dómara þar sem farið verður fram á gæsluvarðhald yfir honum. Ljóst er að hann er grunaður um alvarlegt afbrot fyrst lögreglan mun fara fram á gæsluvarðhald yfir honum.
Aðspurður sagði Kliver að fleiri en einn hafi verið handteknir vegna málsins en vildi ekki fara nánar út í af hverju eða hversu margir.
Hann vildi ekki skýra frá ástandi Filippa annað en að hún væri með meðvitund. Hann vildi ekki skýra frá hvort einhver tengsl séu á milli Filippa og 32 ára mannsins.
Filippa er ekki komin til fjölskyldu sinnar enn sem komið er.