fbpx
Föstudagur 21.febrúar 2025
Fréttir

Fimm ára dóttir Önnu Maríu hætt komin eftir að hafa innbyrt hlaupbangsa sem innihéldu kannabis

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 16. apríl 2023 10:22

Dóttir Önnu Maríu var hætt komin vegna þess að hún innbyrti hlaupbangsa sem reyndust innihalda kannabis.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í lok síðustu viku var greint frá því að Lögreglan á Suðurlandi væri með til rannsóknar mál þar sem að barn veiktist alvarlega af því að borða hlaupbangsa sem síðar kom í ljós að innihéldu kannabis. Um var að ræða fimm ára stúlku sem innbyrti stóran skammt af fíkniefninu og var hætt komin á gjörgæslu vegna þess. Blessunarlega fór allt vel en móðir stúlkunnar, Anna María Hoffmann Guðgeirsdóttir, birti færslu á Facebook-síðu sinni sem hún veitti DV góðfúslegt leyfi til að vinna frétt upp úr enda mikilvægt að foreldrar séu á varðbergi fyrir þessum vágesti.

Undanfarin ár hafa nefnilega nokkur slík mál komið upp þar sem að hlaupbangsar, sem eru í innsigluðu plasti, reynast innihalda kannabis. Þannig auglýsti lögreglan á Norðurlandi að slíkir hlaupbangsar væru í umferð í umdæminu árið 2020 og sama ár voru unglingsstúlkur af Suðurnesjum fluttar á bráðamóttöku eftir að hafa innbyrt sælgætið varhugaverða.

Því er að um að ræða viðvarandi hættu sem mikilvægt er að samfélagið sé vakandi fyrir.

Barnið skyndilega hálf meðvitundarlaust og ælandi

Anna María segir að atvikið hræðilega hafi átt sér stað föstudaginn 31. mars síðastliðinn. Yngsta dóttir hennar hafi þá vaknað með hita og hún fengið móður sína til þess að passa barnið svo að hún og maðurinn hennar gætu haldið til vinnu.

Hún hafi hringt heim í hádegishléinu til að athuga með líðan barnsins, sem reyndist hafa það eins fínt og hægt er í veikindunum og var að fá hádegismat hjá ömmu sinni. Nokkru síðar kom yfirmaður hennar hins vegar inn á deildina á leikskólanum sem hún starfar á og tilkynnt Önnu Maríu að hún þyrfti að drífa sig heim þvi eitthvað væri að hjá dóttur hennar.

„Ég rýk af stað og hringi í manninn minn sem segir að barnið sé meðvitundarlítið og sjúkrabílar séu á leiðinni heim. Þegar ég kem heim eru fjórir sjúkrafluttningliðar inni hjá mér. Einn þeirra heldur Helgu minni uppi hálf meðvitundarlausri og ælandi.
Fórum beint á Barnaspítalann með hana í sjúkrabíl og eldri systkinin eftir að bíða frétta. Þegar á Barnaspítalann er komið eru teknar blóðprufur, mænuástunga og þvagsýni til að rannsaka og þá kemur í ljós að það mælist kannabis í þvagi,“ skrifar Anna María í færslunni.

Taldi pokann vera úr páskaeggi

Hún segir að þau foreldarnir hafi verið eitt spurningamerki í framan því þau noti ekki slík efni og engin í kringum þau. Eftir að hafa gengið á eldri börn sín, sem hafi einnig komið af fjöllum, hafi verið hafist handa við að leita á heimilinu og þá hafi grunurinn beinst að hlaupböngsum í poka sem að amman hafi ætlað að gleðja veika barnabarnið sitt með. Sælgætið hafi verið þegar sent í rannsókn og þá hafi komið í ljós að hlaupbangsarnir reyndust innihalda kannabis.

„Pokann fann móðir mín í bílnum sínum og hélt að það væri innan úr páskaeggi því pokinn var þannig, innsiglaður og úr þykku plasti,“ skrifar Anna María. Þau séu ráðþrota yfir því hvaðan pokinn hafi komist inn í bílinn en móðir hennar hafi haldið að einhver sem hefði fengið bílinn lánaðann hefði opnað páskaegg í bílnum og pokinn dottið úr honum.

Mikið áfall sem mun taka tíma að vinna sig úr

Dóttir Önnu Maríu innbyrti gríðarstóran skammt af efninu, fjórfaldan á við fullorðna manneskju. Hún veiktist hastarlega af kannabiseitrun og þurfti að dvelja á sólarhring á gjörgæslu og síðan annan sólarhring til að jafna sig á Barnaspítala Hringsins.

„Sem betur fer voru lífsmörk hennar alltaf sterk en hún var með mjög hraðan púls og þurfti súrefni til að halda upp 100% súrefnismettun þar til um kvöldið. Hún mun ekki bera neinn varanlegan skaða af þessu atviki og er það okkar bjarti punktur í þessu öllu saman,“ skrifar Anna María.

Hún segir að um mikið áfall hafi verið að ræða en fjölskyldan reynt sitt besta til að njóta samverustundanna um páskana saman. Þau hafi fengið áfallahjálp, fjölskyldumeðferð og sálfræðihjálp til að jafna sig á þessu og sú vinna muni taka einhverja mánuði í viðbóta.

Vill vara samfélagið við hættunni

„Búið er að rannsaka alla sem hafa komið nálægt bílnum og hreinsa af grun eftir því sem ég best veit. Enginn veit hvaðan pokinn kom eða hvernig hann komst í bílinn og það er það sem við erum varnarlaus gagnvart. Við viljum koma því út til samfélagsins að allskonar efni eru komin í hlaup form og varið börnin og aðra við því að þetta sé í umhverfinu. Ef þið ætlið að gefa börnum og öðrum sælgæti er gott að kaupa það sjálf í búðinni,“ skrifar Anna María.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt