Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur, betur þekktur sem Siggi Stormur, er bjartsýnn á það verði bæði þurrt og hlýtt víðast hvar hér á landi í sumar. DV sló á þráðinn til Sigga og fékk hann til að líta til veðurs og rýna í veðurkortin.
Sigurður tekur fram að ekki sé um að ræða hefðbundnar dægurspár heldur tímabilsspár sem gefa vísbendingu um hvernig veðrið verður á einhverju gefnu tímabili. Hann notar bæði líkön frá bandarísku veðurstofunni og Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa en notar hið síðarnefnda meira til viðmiðunar.
„Það sem er í farvatninu er að það er að byggjast upp nokkuð myndarlegt og langvinnt hæðarsvæði yfir norðurhluta Bretlands sem teygir sig síðan til norðurs til Skandinavíu,“ segir Sigurður og bætir við að þetta viti á gott til að byrja með og sumardaginn fyrsti gæti orðið „sumardagurinn besti“ eins og hann orðar það.
„Vorið er komið í kortunum nokkuð ákveðið. Það þarf mjög mikið til að það komi eitthvað hret sýnist mér, spárnar eru að reikna 25% líkur á hreti og þá helst fyrir norðan en líkur á hreti samkvæmt spám eru mjög litlar,“ segir hann um næstu daga og vikur.
Sigurður segir að þetta hæðarsvæði sem hann nefndi áðan geti létt okkur lundina í sumar en þó geti brugðið til beggja vona.
„Ef það vex til vesturs, frá Bretlandi til norðvesturs í áttina til Íslands, getur þetta orðið hæðarsvæði sem beinir lægðunum yfir landið. Það er ekki útgáfa sem við viljum fá,“ segir Sigurður sem kveðst óttast þetta lítillega.
„Engu að síður, þrátt fyrir að þetta líti svona út, þá eru báðar spárnar að spá góðu sumri heilt yfir séð,“ segir hann og á þar við evrópsku og bandarísku líkönin.
„Báðar spárnar eru að sýna að það verður bæði þurrt í sumar og það verður hlýtt. Þetta er blanda sem mörgum líkar, sérstaklega fólki á ferðalögum,“ segir hann en tekur fram að gæðunum verði mögulega misskipt eftir landshlutum eins og oft vill verða. Þannig séu ef til vill meiri líkur á þurrki og hlýindum fyrir norðan en til dæmis á Vesturlandi. „Þangað ná ekki þessir hitastraumar frá þessari hæð sem ég var að nefna.“
Heilt yfir – og breytir þá engu hvort maí, júní, júlí og ágúst eru skoðaðir – verður þó þurrt í veðri og nokkuð milt.
„Ef við tökum þetta saman þá erum við að renna inn í gott sumar. Vorið er komið og sumarið er að koma og mér sýnist að það ætli að byrja í öllum megindráttum sumardaginn fyrsta. Við erum að tala um frekar þurrt sumar, frekar hlýtt sumar, hlýrra en í meðalári og úrkomuminna en í meðalári og raunverulega eru horfurnar afar hagstæðar. Það eru smá stælar með Vesturlandið og stælar sem þurfa ekkert endilega að verða neitt neitt,“ segir hann.
Sigurður ítrekar að um sé að ræða tímabilsspár en ekki dægurspár og það þurfi að taka mið af því.
„Auðvitað verður veður misjafnt þetta sumarið eins og önnur sumar og alla aðra mánuði. En þetta eru svona megindrættirnir sem hægt er að draga út úr þessu.“
Sigurður segir útlit fyrir að veðrið í Bretlandi og í Skandinavíu verði býsna gott en Spánn verði mögulega kaldari en mörg undanfarin ár.
„Þá er ég ekki að tala um neinn kulda, en kannski ekki einhverjar 40 gráður,“ segir hann og virðist fullur tilhlökkunar fyrir komandi sumri. „Ég segir bara hæ, hó jibbí, jei, það er komið sumar – eða allavega vor.“