Skjáskot af atvinnuauglýsingu frá Fiskikónginum, Kristjáni Berg Ásgeirssyni, hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum og vakið gagnrýni. Auglýsingin var í formi stöðufærslu á Facebook og þar tók Kristján skýrt fram að hann óskaði eftir karlmönnum til vinnu, ekki konum:
„Okkur vantar ekki stúlku/konu/stelpu. Okkur vantar karlkyns manneskju í þetta verkefni svo þið megið sleppa að kommenta um eitthvað óréttlæti og kjaftæði. Hef ekki tíma í að svara einhverri vitleysu. Erum með 50/50 á okkar vinnustað.“
Færslunni hefur verið eytt. Kristján svaraði hins vegar gagnrýnisröddum í annarri færslu í gærkvöld og þar spyr hann hvort íslenska þjóðin sé að breytast í vælukjóa. Hann útskýrir þar hvers vegna hann þarf karlmenn í störfin sem hann auglýsti:
„Þetta er komið í svo mikið kjaftæði og væl að ég er hættur að botna í íslenskum lögum og reglum.
Mig vantar karlmann til þess að sinna ákveðnu starfi innan fyrirtækisins sem er mjög líkamlega erfitt. Hef prófað að vera með stelpu í því og eina stelpan sem hefur getað sinnt þessu starfi er Lovísa systir mín.
En hún er líka algjör nagli.
Líkurnar á að fá svoleiðis eintak eru engar. Meiri möguleikar á að vinna í LOTTÓ.
Þannig að stelpur þurfa ekki að sækja um það starf.
Er með annað starf sem ég réði konu til þess að sinna og byrjar hún næstu mánaðarmót.
Ég þekki alveg mörk þess að hvað þetta tiltekna starf krefst, enda fagmaður í fiskvinnslustörfum. Þetta er karlmannsstarf. Punktur.
Meira vælið, það er ekki einu sinni atvinnuleysi og fólk að eyða tíma sínum í að röfla yfir auglýsingu frá Fiskikónginum um starfskraft.
Það er stríð í heiminum. Fólk að missa líf og limi, verðbólga og margir í vandræðum að greiða af lánum sínum.
Er íslenska þjóðin að breytast í vælukjóa?
Hvar er stoltið, eljusemin, krafturinn og þrautseigjan?
Góða nótt.
Þarf að vakna snemma og vinna.“