Edda Björk Arnardóttir, sem hefur verið fyrirskipað að afhenda þrjá syni sína til fulltrúa yfirvalda svo hægt sé að koma þeim í hendur föður þeirra í Noregi, vísar á bug fullyrðingum um að hún heilaþvoi synina. Hún birti nýja yfirlýsingu um málið í dag.
Edda Björk hefur haldið sig frá heimili sínu í Reykjavík með syni sína þrjá undanfarið, en henni hefur verið gert að afhenda þá til fulltrúa yfirvalda sem ætla að koma þeim til föður þeirra í Noregi. Hún segist hafa boðið sýslumanni upp á að aðfarargerð gegn henni yrði næstkomandi mánudag. Faðir drengjanna fer með forræði þeirra og hafa bæði héraðsdómur og Landsréttur úrskurðað að drengirnir skuli teknir frá Eddu.
Edda flaug drengjunum með einkaflugvél til landsins í mars árið 2022. Hún upplýsti í gær að hún hafi verið ákærð í Noregi fyrir að nema drengina á brott. Hún greindi ennfremur frá því að hún sæti 30 þúsund króna dagsektum næstu 100 daga vegna málsins.
Í nýrri tilkynningu um málið segir Edda Björk:
„Það er líka mikið rætt að ég sé að heilaþvo börnin mín.
Drengirnir eru allir jákvæðir í að hitta pabba sinn og eiga með honum stundir en vilja bara alls ekki búa í Noregi fjarri mömmu sinni, systkinum, stjúpa, ömmum, öfum, frænkum, frænkum og vinum. Hver láir þeim það?
Það kemur skýrt fram í skýrslu matsmanns að það eru engin merki þess að reynt hafi verið að hafa áhrif á þeirra persónulegu skoðun. Svo allt tal um mögulegan heilaþvott er gripið úr lausu lofti.
Að dætur mínar hafi slitið öll samskipti við hann er af öðrum toga. Allskonar miður gott gekk á á milli þeirra og það að hann hafi valið sjálfur að ganga alltaf gegn þeirra löngunum og vilja með dómsmálum var heldur ekki að hjálpa til nema síður sé.
Börn eru ekki bjánar, það er ótrúlega sorglegt að sjá hversu margir hoppa beint á þann vagn að halda að ef að börn ákveði sjálf að vilja ekki eitthvað hljóti þau að vera undir áhrifum annarra. Ég vona að börn ykkar sem svona hugsa fái ekki þá meðferð frá sínum foreldrum, að þeirra skoðanir og langanir skipti ekki máli.“
Edda Björk segir að hún sé ekki tálmunarforeldrið í málinu heldur faðir drengjanna.
Lögmaður föðursins hefur bent á að það sé engin tilviljun að faðirinn fari með forsjá drengjanna en ekki Edda Björk.