Emilie hvarf aðfaranótt 10. júlí 2016 þegar hún var á heimleið frá næturskemmtun í Slagelse. Hún gekk frá lestarstöðinni í Korsør og sást ekki á lífi eftir það. Lík hennar fannst á aðfangadag í vatni í um 60 km fjarlægð frá Korsør. Málið er óupplýst og hafa minningar um það vaknað upp hjá mörgum í dag í tengslum við leitina að Filippa. Mál Emilie þykir eitt dularfyllsta morðmál síðari tíma í Danmörku.
Fjölmennt lögreglulið leitar nú að Filippa á Sjálandi og er notast við hunda, dróna og þyrlu við leitina. Lögreglan segir málið mjög alvarlegt og hefur biðlað til almennings um aðstoð og hvetur alla sem telja sig búa yfir einhverri vitneskju um ferðir Filippa eða málið til að hafa strax samband.
Faðir hennar, Allan Nielsen, sagði í samtali við B.T. að Filippa hafi verið nýbúin að bera út dagblöðin þegar hún hvarf. „Ég talaði við hana þegar hún var nýbúin með útburðinn. Það var klukkan 11.30,“ sagði hann.
Lögreglan hefur beðið alla þá sem eru með eftirlitsmyndavélar á húsum sínum eða með myndavélar í bílum sínum og voru á ferðinni á svæðinu í dag að fara yfir upptökurnar og hafa strax samband við lögregluna ef eitthvað athyglisvert eða óeðlilegt sést á þeim. Fólk er jafnframt hvatt til að geyma upptökur úr myndavélum sínum.
Reiðhjól Filippa og fleiri munir í hennar eigu fundust í vegkanti á svæðinu og eru sérfræðingar lögreglunnar nú að rannsaka munina og nánasta vettvang. Umfangsmiklar lokanir hafa verið settar upp á svæðinu og er mikill fjöldi lögreglumanna að störfum.
Lögreglan hefur ekki veitt miklar upplýsingar um rannsókn málsins enda líklega ekki á miklu að byggja enn sem komið er.
Á samfélagsmiðlum hefur fólk tjáð sig mikið um málið og hafa margir vakið athygli á því að Filippa hvarf ekki fjarri þeim stað sem Emilie Meng hvarf á. Óttast margir að tenging geti verið á milli málanna en lögreglan hefur ekkert tjáð sig um þennan vinkil á málinu.
Kim Kliver, yfirlögregluþjónn, sagði í samtali við TV2 fyrir stundu að lögreglan vinni út frá ákveðinni kenningu um hvað hafi gerst en haldi því fyrir sig þessa stundina hvaða kenning þetta er. Hann tók einnig fram að lögreglan útiloki ekki neitt varðandi atburðarásina.