Nú eru það ekki bara Noregur, Eistland og Lettland sem eiga landamæri að Rússlandi sem NATO-ríki. Nýlega bættust 1.340 km við landamæri NATO og Rússlands þegar Finnar gengu í varnarbandalagið.
„Það hljóta einhverjir að vera með slæma timburmenn í Moskvu“, sagði Erik Kulavig, lektor emiritus við Syddansk Universitet í Danmörku, í samtali við TV2 um þessa þróun mála.
Poul Villaume, sagnfræðingur og sérfræðingur í málefnum NATO og kalda stríðinu og prófessor emiritus við Kaupmannahafnarháskóla, sagði að með hlutleysi sínu fram að þessu hafi Finnar lagt sitt af mörkum til ákveðins stöðugleika á Norðurlöndum. Nú breytist það mikið að hans sögn.
Nú séu flest ríkin við Eystrasalt meðlimir í NATO. Lítil spenna hafi verið á Norðurlöndunum á dögum kalda stríðsins en nú sé Eystrasalt orðið áhrifasvæði NATO og það hugnist Rússum lítt því aðalflotastöð austurflota þeirra eru í St Pétursborg.
„Eftir „sjálfsmark“ Rússa í Úkraínu og nýjustu viðbótina við NATO er hin afgerandi spurning: Hvernig verður NATO-aðild Finna og Svía? Sú sviðsmynd sem ég hef mestar áhyggjur af er að í Finnlandi og Svíþjóð verði komið upp herstöðvum með bandarískum hermönnum, kjarnorkuvopnum og flugskeytum. Á erfiðum tímum getur það leitt til mjög hættulegrar stöðu fyrir Norðurlöndin,“ sagði hann.
Hann sagði að óháð því hvort þetta gangi eftir, þá sé enginn vafi á að á næstu árum verði aukin hernaðarleg spenna á Norðurlöndunum.