Edda Björk Arnardóttir, sem hefur haldið sig frá heimili sínu í Reykjavík með syni sína þrjá undanfarið, en henni hefur verið gert að afhenda þá til fulltrúa yfirvalda sem ætla að koma þeim til föður þeirra í Noregi, segist hafa boðið sýslumanni upp á að aðfarargerð gegn henni yrði næstkomandi mánudag. Faðir drengjanna fer með forræði þeirra og hafa bæði héraðsdómur og Landsréttur úrskurðað að drengirnir skuli teknir frá Eddu. Edda flaug drengjunum með einkaflugvél til landsins í mars árið 2022.
Í stuttu samtali við DV sagðist Edda ekki vita hvenær af aðfarargerðinni verði, þ.e. þegar drengirnir verða fluttir til Noregs. Hún hefur birt tilkynningu um málið þar sem kemur fram að lagðar hafi verið á hana dagsektir upp á 30 þúsund krónur á dag næstu 100 daga. Einnig hefur hún fengið þau tíðindi að hún hafi verið ákærð í Noregi fyrir að nema drengina á brott. Í tilkynningunni segir:
„Núna er svo komið að við höfum eins og margir vita haldið okkur utan Reykjavíkur undanfarið. Við höfum gert það af góðri ástæðu.
Í millitíðinni hefur ýmislegt gerst en á mig hafa verið lagðar dagsektir að upphæð 30.000 næstu 100 daga eða þar til ég afhendi drengina. Sem er galið að halda að börn séu afhent gegn þeirra vilja. Mig langar að biðja alla sem hafa átt börn, eiga börn eða bara hreinlega nóg að hafa verið börn að hugsa þetta að afhenda barn gegn vilja þess. 12 ára börn og að verða 10 ára.
Afhent og þar með þurfa að kveðja það líf sem þeir óska sér að lifa með fjölskyldunni og vinum. Afhenda í að lifa í öðru landi, sem er ekki heimaland þeirra, og vera þar án nokkurs möguleika á samskiptum við mömmu sína, stjúpa og systkini en þær fréttir bárust frá Noregi að ég hef verið ákærð þar fyrir að nema drengina á brott og eiga réttarhöld að vera í ágúst. Sem gerir mér ómögulegt að ferðast þangað án hættu á handtöku.“
Edda segist hafa sent tölvupóst til sýslumannsembættisins þar sem boðið var upp á að aðfarargerðin færi fram næsta mánudag. Ekki hafi borist svör við því erindi. Ennfremur segir í tilkynningunni:
„Við viljum í þessu sem öðru gæta hagsmuna drengjanna eins og hægt er og gefa þeim undirbúning og leyfa þeim að hitta Ívar heima i þeirra öryggi. Að þeir fái undirbúning þannig að þeir viti tíma og stund. Að ekki allt í einu birtist fólk á tröppunum sem vill taka þá og færa í burtu.
Ég og við öll óskum þess af öllu hjarta að þeir fái að segja sína skoðun eins og Barnasáttmálinn segir til um og að það verði hlustað á þeirra vilja og skoðun. Ekkert er mikilvægara að kenna börnum en að þeirra álit hafi ahrif og hlustað sé á þau. Hvað þá er varðar meiriháttar ákvarðanir um líf þeirra.“