Þetta sagði Andrij Sybiha, aðalráðgjafi Voldomyr Zelenskyy forseta, í viðtali við Financial Times í síðustu viku. Hann sagði að ef Úkraínumenn ná markmiðum sínum á vígvellinum og komist alla leið að mörkum Krímskaga séu þeir reiðubúnir til að hefja diplómatískar viðræður um framtíð skagans.
Krím var hluti af Úkraínu frá hruni Sovétríkjanna 1991 þar til 2014 þegar rússneskar hersveitir hertóku skagann.
Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu á síðasta ári hefur Zelenskyy ítrekað vísað því á bug að Úkraínumenn muni láta Rússum svo mikið sem þumlung af úkraínsku landsvæði eftir og að Úkraínumenn ætli að ná öllu landi sínu úr klóm Rússa, þar á meðal Krímskaga.
Sybiha sagði að Krím komist aftur í hendur Úkraínumanna á einn eða anna hátt. Diplómatískar viðræður þýði ekki að Úkraínumenn útiloki að beita hervaldi til að ná skaganum.
En hvað býr að baki þessum ummælum Sybiha? Danska ríkisútvarpið spurði Claus Mathiesen, sérfræðing við danska varnarmálaskólann, að því. Hann sagðist sjá þrjár hugsanlega skýringar á þessum ummælum.
Þau geti verið hluti af sálfræðihernaði tengdum væntanlegri vorsókn úkraínska hersins. Gefið sé í skyn að sótt verði að Krím en í raun sé verið að undirbúa sókn á allt öðrum stað.
Önnur skýring geti verið að með þessu sé ætlunin að róa vestræna stjórnmálamenn sem óttast sumir að Rússar muni beita vígvallarkjarnorkuvopnum ef Úkraínumenn ráðast á Krím. Aðspurður hvort hann telji líklegt að Pútín muni beita vígvallarkjarnorkuvopnum ef Úkraínumenn ráðast á Krím sagðist hann telja það eina erfiðustu spurninguna til að svara af vissu. „En eins og ég sé þetta, þá getur maður sagt, að þeim mun lengur sem stríðið stendur yfir og þeim mun verr sem það gengur hjá Rússum, þeim mun meiri hætta er á að Rússar grípi til þessa örþrifaráðs,“ sagði hann.
Þriðji möguleikinn, sem hann sér fyrir sér varðandi ummæli Sybhia, er að Úkraínumenn vilji semja um Krím: „Þriðji möguleikinn er auðvitað að þetta sé sagt af fullri alvöru. Sú sviðsmynd, sem ég sé fyrir mér, er að menn vilji semja út frá sterkri stöðu sinni þar sem þeir hafa hrakið Rússa frá nær öllum svæðum í austurhluta Úkraínu og vilja þá semja um Krím.“