Fyrirtaka verður í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 17. apríl næstkomandi í máli sem Ragnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alendis ehf, sem rekur streymisveitu fyrir hestaíþróttaviðburði, hefur höfðað gegn félaginu. Krefst hann tæplega sjö milljóna króna, 6.915.704 kr. ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði. Alendis, sem hafnar kröfum Ragnars, hefur aftur á móti kært hann til héraðssaksóknara, fyrir meintan fjárdrátt og svik við félagið.
Ragnar, sem er fæddur árið 1994, segist hafa í starfi sínu unnið ötullega að því að auka hag félagsins og hafi allar ákvarðanir af hans hálfu verið teknar með hag félagins fyrir brjósti. Hafi hann lagt mikinn metnað í störf sín og auk þess lagt félaginu til töluverða fjármuni í formi lána til reksturs þess.
Þá segir að Alendis hafi vaxið mjög fiskur um hrygg og ör þróun félagsins hafi verið kostnaðarsöm. Hafi hann lagt til fjármuni til að mæta því en aðaleigandinn hafi ekki gert það og hann hafi lítil afskipti haft af rekstrinum.
Ragnar lýsir því síðan að hann hafi stofnað félagið Aðdráttur ehf. utan um sýningarrétt Alendis á hestaíþróttamótum og hafi tilgangurinn verið að tryggja endurgreiðslur úr ríkisstjóði á 25% framleiðslukostnaðar á grundvelli laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. „Stefnanda varð hins vegar ljós að félagið Alendis ehf. gæti í óbreyttri mynd ekki óskað eftir endurgreiðslu á grundvelli laganna þar sem í þeim var kveðið á um að framleiðsla efnis sem ætlað sé til sýninga í eigin dreifikerfi skuli ekki njóta endurgreiðslu samkvæmt lögunum.“
Er síðan rakið að aðaleigandi félagsins hafi árið 2022 viljað slíta samstarfinu við Ragnar og stjórn hafi samþykkt að segja honum upp störfum og greiða honum þriggja mánaða uppsagnarfrest.
Ragnar hafi síðan verið sakaður um refsiverða háttsemi í störfum sínum sem hann hafnar með öllu, enda hafi hann upplýst stjórn Alendis um ákvarðanir sínar og ekki hafi neinar athugasemdir verið gerðar við þær. Segist Ragnar hafa vegna þessarar framkomu skilað prókúru sinni fyrir félagið og skráð sig úr stjórn og framkvæmdastjórn.
Tæplega sjö milljóna krafa Ragnars snýr að launum í uppsagnarfresti sem hann hafi ekki fengið greidd, orlof, endurgreiðslu á lánum hans til fyrirtækisins, árangurstengdar bónusgreiðslur og miskabætur. Miskabótanna krefst Ragnar vegna þeirrar framkomu sem Alendis hafi sýnt honum við starfslok hans og eiga þær bætur að nema einni milljón króna.
Í greinargerð Alendis er öllum kröfum Ragnars hafnað. Segir að stefna hans sé mjög ítarleg en fæst í henni sé sannleikanum samkvæmt. Segir meðal annars að í stefnunni sé að finna „rósrauðan fagurgala um vel unnin störf stefnanda fyrir stefnda; hann hafi unnið ötullega fyrir félagið, ávallt með hag þess fyrir brjósti og metnað fyrir þessi hönd. Segir að stefnandi hafi sinnt öllum sínum starfsskyldum og gott betur en það, auk þess sem hann hefði lagt félaginu til fjármuni í formi lána til reksturs. Fátt er fjarri sanni.“
Segir að Ragnar hafi á stuttum tíma í starfi sínu sem framkvæmdastjóri félagsins dregið sér milljónir króna úr sjóðum Alendis, stolið samningum frá Alendis með blekkingum og unnið gegn fyrirtækinu þannig að það hafi verið skilið eftir sem rústir einar. Er bent á að ávörðunin um að færa samninga Alendis undir fyrirtækið Aðdrátt hafi verið tekin án vitundar og samþykkis stjórnar Alendis. Gildi svo um fleiri ákvarðanir Ragnars, sem sakaður er um siðrof og hefur, sem fyrr segir, verið kærður til Héraðssaksóknara fyrir meint brot í starfi:
„Á sínum stutta tíma sem framkvæmdastjóri náði stefnandi, með því að draga að sér milljónir króna úr sjóðum stefnda, stela samningum frá stefnda með blekkingum og með því að vinna gegn hagsmunum stefnda, að skilja stefnda eftir nánast sem rústir einar. Stefnandi stofnaði önnur félög í samráði við hluta af öðrum starfsmönnum stefnda í því skyni að færa helstu verðmæti og viðskipti yfir til þess. Vann hann ljóst, en aðallega leynt, með sviksamlegum hætti, blekkingum og samsæri að því að sölsa undir sig starfsemi stefnda. Er um að ræða fullkomið siðrof stefnanda, sem hafði verið sýnt traust og trúnaður og fengið gefins 20% hlut í stefnda. Hefur stefnandi verið kærður til embættis Héraðssaksóknara fyrir brot sín.“
Þá segir að Ragnar noti fullyrðingar um afskiptaleysi aðaleiganda af rekstrinum sem réttlætingu fyrir einhliða ákvörðunum sínum. Bent er síðan á að fjöldi funda hafi verið haldinn um málefni fyrirtækisins og: „Enn fremur óskaði aðaleigandi stefnda ítrekað eftir reglulegum stöðupóstum frá stefnanda sem hann sinnti illa og oft ekki.“
Alendis segir ennfremur í greinargerð sinni að Ragnar hafi ætlað að yfirtaka reksturinn en þeirri yfirtökutilraun hafi verið hrundið.
Í greinargerðinni er ennfremur staðhæft að Ragnar hafi greitt sér laun langt umfram umsamin laun. Þá er hann meðal annars sakaður um að hafa fengið yfirdrátt fyrir fyrirtæki sitt Aðdrátt ehf. með veði í tekjum Alendis, „sem stefnandi flutti yfir til Aðdráttar ehf. Stefnandi gerði stjórn aldrei grein fyrir sjálfskuldarábyrgð sinni né heldur því að sótt hefði verið um aukna yfirdráttarheimild.“
Þá segir ennfremur að Ragnar hafi á um níu mánaða tímabili látið Alendis greiða rúmlega fjórar milljónir króna vegna útgjalda sem annað hvort voru vegna persónulegra þarfa Ragnars eða voru Alendis óviðkomandi. Alendis segir þetta vera fjárdrátt af hálfu Ragnars og eru þetta meðal annnars flugferðir, hótelkostnaður, iPhone 13 farsímar, kæliskápar, þurrkarar og fleira. Einnig er hann sagður hafa látið fyrirtækið greiða fyrir parket upp á vel yfir hálfa milljón króna en ekkert slíkt parket sé að finna á starfsstöð Alendis.
Ennfremur segir þetta um meint fjársvik Ragnars:
„Þann 9. maí 2022 lét stefnandi færa rafræna greiðslugátt stefnda yfir til Aðdráttar ehf. og í gegnum greiðslugáttina í alls 7 skipti á tímabilinu 3. júní 2022 til 6. september 2022 og dró þannig að sér fyrir hönd Aðdráttar ehf. samtals 30.407.474 kr. af fjármunum stefnda með því að taka við greiðslum ætluðum stefnda um hina færðu greiðslugátt inn á reikning Aðdráttar ehf. og nýta féð í þágu rekstrar Aðdráttar ehf. Fé þessu var veitt um greiðslugátt stefnda inn á evru-reikning Aðdráttar ehf. og þaðan inn á rekstrarreikning Aðdráttar. “
Bæði stefna Ragnars og greinargerðir Alendis í málinu eru mjög langar og ítarlegar, hér hefur aðeins verið tæpt á því helsta, en ljóst er að aðilarnir eru fullkomlega ósammála um málsatvik. Ragnar telur sig eiga inni peninga hjá fyrirtækinu en fyrirtækið sakar hann um fjárdrátt og aðra sviksemi við sig.
Sem fyrr segir verður fyrirtaka í málinu þann 17. apríl næstkomandi við Héraðsdóm Reykjavíkur. Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður, lögmaður Alendis ehf, vildi ekki tjá sig um málið, að því undanskildu að fyrirséð væri að Ragnar myndi fella niður málið við þá fyrirtöku.