Sigurvin Lárus Jónsson, prestur við Fríkirkjuna í Reykjavík, segir að fermingarbarni sem fermdist í Grafarvogskirkju í ár, stærsta söfnuðu þjóðkirkjunnar, hafi verið gert að skrá sig úr Fríkirkjunni og í þjóðkirkjuna til að mega fermast þar.
„Til að virða val ungmennisins skráðu foreldrar þess barnið nauðbeygt í þjóðkirkjuna og leiðréttu síðan trúfélagsskráninguna daginn eftir í samráði við ungmennið,“ segir Sigurvin í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag sem ber yfirskriftina: Fermingarbörnum stolið.
Í grein sinni bendir Sigurvin á að fermingin sé dýrmætur áfangi í lífi ungmenna, áfangastaður á leið til fullorðinsára þar sem ungmenni eru hvött til að taka sína andlegu vegferð í eigin hendur og velja hvort, hvar og hvernig þau vilja fermast.
„Það dýrmætasta sem fullorðið fólk getur miðlað ungmennum sínum á fermingardaginn er víðsýni og samstaða með þeirri ákvörðun sem ungmennið tekur,“ segir hann.
Hann segir að þau ár sem hann starfaði í þjóðkirkjunni, sem æskulýðsprestur og prestur, hafi mörg ungmenni leitað í starfið sem ekki tilheyrðu þjóðkirkjunni.
„Í barna- og unglingastarfi voru börn sem tilheyrðu öðrum kirkjum eða trúarbrögðum, jafnvel múslímar og búddistar, og á þeim árum var ekki gerð krafa um trúfélagsaðild til að vera með. Það er enda eðli þjóðkirkju að þar sé vítt til veggja og hátt til lofts,“ segir hann.
Sigurvin segir mörg fríkirkjuungmenni velja að fermast í sinni sóknarkirkju, með sama hætti og ungmenni sem tilheyra þjóðkirkjunni eða standa utan trúfélaga velja að fermast í Fríkirkjunni.
„Fram til þessa hafa fríkirkjurnar getað treyst því að gagnkvæm virðing ríki í garð trúfélagsaðildar, með þeirri undantekningu að prestar Digraneskirkju neituðu að ferma fríkirkjuungmenni árið 2007 er varð að blaðamáli,“ segir hann.
Hann segir að nú virðist hafa orðið stefnubreyting í þjóðkirkjunni vegna umrædds barns sem var gert að skrá sig úr Fríkirkjunni til að mega fermast í Grafarvogskirkju.
„Ástæðan var sögð fjárhagsleg, að ungmennið mætti ekki njóta þjónustu Grafarvogskirkju án þess að vera skráð í trúfélagið, en engin krafa var gerð um að foreldrarnir skiptu um trúfélag,“ segir Sigurvin sem segir að þessi breyting sé dapurleg í þrenns konar ljósi.
Í fyrsta lagi segir hann að verið sé að rugla saman trúfélagsskráningu og fermingu sem eru eðlisólík fyrirbæri.
„Ef prestar Grafarvogskirkju líta svo á að fermingin sé viðurkenning á trúfélagsaðild er það þröng sýn á ferminguna. Ef krafan er trúfræðileg má benda á að játningarlega er enginn munur á Fríkirkjunni og þjóðkirkjunni, þótt áherslur og stjórnskipulag séu annað. Ungmenni eiga ekki að vera sett í þá stöðu að velja á milli þess að fylgja félagahópnum og fjölskyldu sinni í trúfélagsaðild.“
Í öðru lagi segir hann það virðingarleysi í garð þeirra sem tilheyra annarri kirkjudeild eða jafnvel trúarbrögðum að skikka ungmenni til að skrá sig úr sínu trúfélagi og í þjóðkirkjuna til að njóta þjónustu þess.
„Þjóðkirkjan getur ekki samtímis sagst virða trúfrelsi og fjölmenningu og gert þá kröfu að öll þau sem þiggja þjónustu séu meðlimir í trúfélaginu,“ segir hann.
Hann segir svo í þriðja lagi að hin fjárhagslegu rök standist enga skoðun.
„Þjóðkirkjan hefur það fjárhagslega forskot á Fríkirkjuna að laun þjóðkirkjupresta eru greidd samkvæmt samningi við ríkissjóð á meðan Fríkirkjan greiðir laun sinna presta eingöngu af trúfélagsgjöldum meðlima sinna. Þrátt fyrir það rukkar Grafarvogskirkja 21.194 krónur fyrir fermingarfræðslu en fermingarfræðsla Fríkirkjunnar er öllum að kostnaðarlausu. Þá fylgja engin trúfélagsgjöld með fermingarungmennum fyrr en við 18 ára aldur.“
Sigurvin endar grein sína á þeim orðum að fjölskylda viðkomandi fermingarungmennis fagni þeirri ákvörðun sem ungmennið tók, að fermast með skólafélögum sínum í Grafarvogskirkju. Þeim sé hins vegar misboðið yfir framgöngu Grafarvogskirkju gagnvart ungmenninu.
„Viðkomandi ungmenni átti fallegan fermingardag og er nú komið aftur í faðm Fríkirkjunnar en eftir situr sú staðreynd að hafa verið gert að skipta um trúfélag, þvert á vilja ungmennisins.“