Prigozhin tilkynnti þetta í hljóðupptöku á Telegram um miðnætti. Hann sagði að rússneski fáninn hafi verið dreginn að húni á ráðhúsinu en úkraínskar hersveitir séu enn í vesturhluta bæjarins. „Út frá lagalegu sjónarhorni hefur Bakhmut verið hertekin,“ sagði hann.
Reuters skýrir frá þessu en fréttaveitan hefur ekki getað staðfest þessi orð Prigozhin.
Yfirstjórn úkraínska hersins vísar þessum fullyrðingum hans á bug í færslu sem hún birti á Facebook í nótt. Segir hún að Rússar haldi uppi stöðugum árásum á Bakhmut en úkraínskar hersveitir hafi varist hetjulega og stöðvað sóknir Rússa.
Prigozhin hefur áður komið með tilkynningar um sigra á vígvellinum sem áttu sér ekki stoð í raunveruleikanum.