Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hjá Bliku segir að veturinn sem senn líður undir lok hafi verið sá kaldasti á þessari öld í Reykjavík.
Einar segir frá þessu á Facebook-síðu sinni og bætir við að meðalhiti vetrarins frá desember og fram í mars hafi verið -1,6 gráður. Af þessum mánuðum var desember sá kaldasti með meðalhita upp á -3,9 gráður, í janúar var meðalhitinn -1,8, í febrúar +2,1 og mars -1,6.
„Kaldara var í Reykjavík veturinn 1994-95. Þá var meðalhiti undir frostmarki alla vetrarmánuðina og reyndar líka snjóþungur vetur um mikinn hluta landsins,“ segir Einar í færslunni.
Hann segir að nýliðinn mars hafi verið óvenju þurr á alla mælikvarða. „Langt undir 10 mm samtals í höfuðborginni,“ segir Einar og bætir við að endanleg yfirferð sé væntanleg frá Veðurstofu Íslands á næstunni.
„Til að finna einhvern almanaksmánuð með svo lítilli úrkomu þarf að fara aftur til 1971. Þá í júní. En af marsmánuðum var þurrara í Reykjavík í mars 1962 fyrir rúmlega 60 árum, með aðeins 2,3 mm.“
Hann segir að tíðin í vetur skeri sig mikið úr, einkum í samanburði við aðra vetur eftir að tók að hlýna hér á landi skömmu fyrir aldamótin. „Bæði fyrir langa samfellda kuldakafla og ekki síður óvenju eindregin skil,“ segir hann en færsluna má lesa í heild sinni hér að neðan.