Heiðrún býr í íbúð í fjölbýlishúsi ásamt eiginmanni sínum, tveimur börnum og tveimur gæludýrum, hundi og ketti.
„Ég er á kafi í skít í orðsins fyllstu,“ segir Heiðrún í samtali við DV.
„Kópavogsbær fríar sig undan ábyrgð og segir þetta tryggingarmál. Tryggingarnar, VÍS, segja okkur að þetta sé á Kópavogi. Og eftir sitjum við með milljóna tjón eftir að skítur heils bæjarfélags flæddi inn á baðherbergi, inn á stofu, þvottahús, gang og bæði barnaherbergin. Enginn kemur og þrífur eða neitt, enginn gerir neitt.“
Heiðrún skrifaði færslu um málið á Facebook sem hefur vakið mikla athygli, hún þar að auki tók upp ferlið fyrir Story á Instagram og má horfa á það í highlights með því að smella hér.
„Síðustu þrjá daga hef ég setið í skítnum því Kópavogsbær þarf að skoða málið og hvaðan stíflan í skólpkerfinu þeirra á rætur sínar að rekja og fara yfir málið. Þú veist, af því að við eigum öll skít nóg af peningum og höfum efni að búa á hóteli á meðan, eða hitt þó heldur.“
Heiðrún fer yfir söguna. „Þann 28. mars fór sonur minn niður eftir kvöldmatinn og fékk sjokk, neðri hæðin var að fyllast af vatni. Hann kallaði á systur sína, pabba sinn og náði í afa sinn sem hringdi í 112 og kallaði til slökkviliðið. Á meðan flæddi skólpið inn með tilheyrandi skítafýlu, óþrifnaði og viðbjóð inn í íbúðina og tók yfir með skelfilegum afleiðingum fyrir okkur,“ segir hún og bætir við að sem betur fer hafi hún verið í vinnu á meðan þetta gerðist.
„Því ég veit ekki hvernig ég hefði brugðist við að sjá saur og klósettpappírsagnir renna ljúflega yfir stofuna mína og fljóta hægt og rólega um svefnherbergi barnanna minna og í átt að mínu eigin. Ég kúgast við tilhugsunina,“ segir hún.
Heiðrún fékk símtal um hvað hafi skeð og dreif sig heim. „Ég sá hrúguna af fíldjörfum slökkviliðsmönnum moka skólpi út af neðri hæðinni minni og röfla yfir dömubindum og túrtöppum í niðurföllum.“
Á þessum tímapunkti höfðu Heiðrún og fjölskylda ekki hugmynd um hversu umfangsmikið þetta væri í raun og veru.
„Fljótlega kom dælubíll sem byrjaði að losa stífluna en shit… Þetta var aðeins stærra en við héldum og stíflan átti rætur sínar að rekja í enn stærri stíflu í skólpkerfum Kópavogsbæjar,“ segir hún og heldur áfram:
„Þessir galvösku menn náðu að losa stífluna en það tók tíma. Þeir kláruðu vatnið á bílnum og urðu að sækja meira. Á meðan kom fulltrúi Kópavogsbæjar og sagði, svo allir máttu heyra, að þetta væri tjón á ábyrgð bæjarins og það væri ekki spurning.“
Þrátt fyrir það segir Heiðrún að fjölskyldan sitji eftir í skítnum. „Núna, um tveimur sólarhringum síðar gengur þó ekkert að tjónka við Kópavogsbæ og eftir sitjum við í saurbælinu sem skólpið skildi eftir sig. Enginn ætlar að koma og þrífa eða bera ábyrgð, fyrr en búið er að ræða þessi mál á skrifstofunni. Það þarf nefnilega að passa upp á pappírana.
En hver á þá að passa upp á einstaklingana sem sitja eftir í skítnum? Í bókstaflegri merkingu,“ spyr Heiðrún og bætir við að fjölskyldan geti ekki beðið lengur á meðan Kópavogsbær talar við tryggingarfélagið sitt.
„Íbúðin okkar er ónýt. Líkurnar á myglu aukast með hverri mínútu sem líður og á meðan draga tryggingarfélagið Vís og bærinn lappirnar við að þrífa eigin skít,“ segir Heiðrún.
„Svo hér er ég, að grátbiðja um að einhver heyri í okkur og hjálpi okkur við að koma þessu í réttan farveg svo ég geti dílað við skítinn sem Kópavogsbær skildi eftir á heimili mínu, skítinn sem bærinn neitar að koma og þrífa.“
Hún segir að það hljóti að vera einhver lausn. „Það er ekki í lagi að heil fjölskylda missi afnot af húsnæðinu sínu, búi á hóteli og sitji uppi með skítinn þegar svona klikkar en staðan er þó sú að í tvo daga höfum við þurft að díla við þetta og ekkert gerist hjá bænum né Vís Ég er ráðþrota, ég er uppgefin og það er skítafýla af mér.“
Uppfært 15:05 – Kópavogsbær hefur gert athugasemdir við fréttina og segir það rangt að bærin hafi viðurkennt ábyrgð.
„Ekki er rétt sem fram kemur í fréttinni að Kópavogsbær hafi viðurkennt ábyrgð á stíflunni. Kópavogsbær lét hreinsa lögnina í gær, og voru lagnir myndaðar til að athuga með frekari skemmdir.
Húsnæðiseigendum hefur verið bent á að tilkynna tjónið til VÍS, sem er tryggingarfélag Kópavogsbæjar. Vís tekur við tilkynningunni og leitar í framhaldi eftir upplýsingum um atvikið og metur bótaskyldu“.