En árangursrík gagnsókn Úkraínumanna gæti breytt þessu að því er segir í nýrri greiningu frá bandarísku hugveitunni Institute for the Study of War (ISW).
„Pútín einblínir enn á að ná upphaflegum markmiðum sínum með því að sigra í langdregnu stríði. Annað hvort með því að sigra á vígvellinum eða með því að brjóta Úkraínumenn á bak aftur síðar þegar Vesturlönd hafa gefið stjórnina í Kyiv upp á bátinn,“ segir í greiningunni.
Jacob Kaarsbo, sérfræðingur hjá dönsku hugveitunni Tænketanken Europa, sagði í samtali við TV2 að hann sé sammála helstu niðurstöðum ISW en bætti við að Pútín gleymi að hvorki Úkraína né Vesturlönd hafa áhuga á friðarviðræðum núna.
„Flestir á Vesturlöndum, vestrænar ríkisstjórnir, hafa áttað sig á þessu: Að það þýðir ekki að semja við Pútín. Markmið hans er að ná eins stórum hluta af Úkraínu undir sig og hægt er. Það er það sem maður heyrir öllum stundum ef maður horfir á rússneskar ríkissjónvarpsstöðvar,“ sagði Kaarsbo.