Kona á 24. aldursári hefur verið sakfelld fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot vegna atviks sem átti sér stað á Akureyri 7. október árið 2021. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 24. mars.
Konan hafði ekið austur Gránufélagsgötu en virti ekki biðskyldu á gatnamótum Gránufélagsgötu og Hjalteyrargötu með þeim afleiðingum að hún ók á annan bíl sem snerist á götunni í 90 gráður og í veg fyrir rútu sem ekið var suður Hjalteyrargötu og lenti á bílnum.
Ökumaður bílsins slasaðist nokkuð, hlaut „afrifubrot á enda þvertinds (processus transversus) yfir lendarhryggjarlið 3,“ eins og segir í dómnum.
Brotið telst bæði varða við almenn hegningarlög og umferðarlög. Samkvæmt 219. grein hegningarlaganna varðar það sektum eða fangelsi allt að fjórum árum ef tjón á líkama eða heilbrigði hlýst af gáleysi annars manns.
Konan játaði brot sitt fyrir dómi. Einnig kemur fram að hún er með hreinan sakaferil. Var hún sakfelld og dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu um 335 þúsund króna samanlagt í málskostnað og þóknun til verjanda síns.