Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að pólskur maður sem búsettur er hér á landi verði framseldur til Póllands á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar sem gefin var út fyrir þremur árum.
Maðurinn hefur verið dæmdur fyrir ölvunarakstur og fjársvik í Póllandi. Hann kom hingað til lands árið 2014 og bjó hér með unnustu sinni og syni. Árið 2016 var hann framseldur til Póllands vegna handtökuskipunar frá árinu 2015. Samkvæmt framsalsbeiðninni sem borist hefur íslenskum yfirvöldum vegna málsins núna rauf maðurinn skilorð og á því að sitja af sér dóm sem hann hafði fengið reynslulausn frá.
Maðurinn krafðist þess að framsalsbeiðninni yrði hafnað, m.a. á þeim forsendum ekki komi fram í henni með hvaða hætti hann á að hafa rofið skilorð og auk þess hafi hann ekki verið löglega boðaður til að vera viðstaddur þá ákvörðun.
Að mati bæði héraðsdóms og Landsréttar eru lagaleg skilyrði í málinu hins vegar uppfyllt og hafa þeir því staðfest þá ákvörðun ríkissaksóknara frá 13. febrúar síðastliðnum, að verða við beiðni pólskra yfirvalda um að afhenda manninn til Póllands, á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar sem gefin var út í mars árið 2020.
Úrskurðina má lesa hér.