„Á liðnu ári hafa fjölmiðlar á Íslandi ítrekað borið fram alvarlegar og ærumeiðandi ásakanir á hendur Vottum Jehóva,“ segir Jörgen Pedersen í aðsendri grein í Morgunblaðinu þann 18. mars síðastliðinn. Jörgen er stjórnarformaður trúfélgs Votta í Noregi en tilefni greinar hans er umfjöllun íslenskra fjölmiðla um meint ofbeldi innan söfnuða félagsins, meðal annars í sjónvarpi á liðnu ári. Jörgen segir:
„Á liðnu ári hafa fjölmiðlar á Íslandi ítrekað borið fram alvarlegar og ærumeiðandi ásakanir á hendur Vottum Jehóva. Það er í sjálfu sér áhyggjuefni að þessar staðlausu ásakanir skuli vera birtar. Það er ekki síður alvarlegt mál að Vottar Jehóva skuli ekki hafa fengið tækifæri til að tjá sig um þessar ásakanir áður en þær voru birtar. Að gæta ekki hlutlægni og nákvæmni í miðlun upplýsinga til almennings er brot gegn 26. grein fjölmiðlalaga.“
Jörgen sakar þá sem hafa stigið fram í viðtölum um ósannindi. Hann segir ennfremur:
„Vottar Jehóva eru vel þekkt alþjóðlegt trúfélag. Safnaðarmenn eru 8,6 milljónir á heimsvísu og söfnuðurinn hefur starfað á Íslandi í næstum 100 ár. Vottar Jehóva virða rétt hvers og eins til að ákveða hvaða trúarskoðanir hann aðhyllist, ef þá einhverjar. Rannsóknir fræðimanna hafa sýnt fram á að vottar Jehóva „bera mikla virðingu fyrir lífinu og mannlegri reisn“ og trúarkenningar þeirra „einkennast af ríkulegu valfrelsi og frelsi til að taka eigin ákvarðanir“.“
Örn Svavarsson, stofnandi Heilsuhússins, er einn þeirrra sem stigu fram í áðurnefndum sjónvarpsviðtölum, auk þess sem hann hefur tjáð sig um trúfélagið í aðsendum greinum. Örn sér sig knúinn til að svara grein Norðmannsins og birtir grein í Morgunblaðinu í morgun. Þar segir:
„Þar sem ég tók þátt í umræðunni um Vottana í kjölfar sjónvarpsviðtala á síðasta ári og tjáði mig um mína reynslu, mun ég vera í hópi þeirra sem stjórnarformaður norskra Votta Jehóva dylgjar um. Því vil ég árétta að ég var alinn upp sem vottur Jehóva frá blautu barnsbeini af mjög trúheitri móður. Fyrir ákafa hvatningu hennar og frekari örvun annarra votta lét ég skírast aðeins tíu ára gamall, enda höndluðum við sannleikann og vegur framtíðar blasti ljóslifandi við okkur, Harmageddon og eilíf jarðnesk paradís þar handan við.“
Örn vísar því á bug að hann og aðrir sem vitnað hafa um reynslu sína af Vottum Jehóva fari með ósannindi. Hann segir að valfrelsi meðal Votta Jehóva, sem Jörgen staðhæfir að sér virt, sé ekki meira en það að það hafi í för með sér útskúfun út samfélaginu ef meðlimir ganga af trúnni. Hann lýsir meðferðinni á þeim sem snúa baki við trúnni með eftirfarandi hætti:
„Vottur sem missir trúna á guðinn Jehóva og félag hans, eða velur að lifa sínu lífi með öðrum hætti en félagið býður, er rekinn. Fólk er smánað. Útskúfun þar sem öllu þess fólki, æskuvinum jafnt sem frændfólki, nánustu fjölskyldu, jafnvel systkinum, foreldrum og börnum er bannað að hafa við það nokkurt samneyti, er andstyggilegt form refsingar, andlegt ofbeldi í sinni verstu mynd. Þegar heilt samfélag tekur sig saman um að leggja fæð á einn einstakling, þegar heill söfnuður fær fyrirmæli frá sínum andlegu leiðtogum um að hunsa einn úr sínum hópi með öllu, virða hann ekki viðlits frekar en að hann hefði aldrei verið til, þá eru slíkar öfgafullar aðgerðir einelti á hæsta stigi og hrópleg brot á mannréttindum.“