Landsréttur hefur úrskurðað erlendan mann, sem á eftir að afplána fjögurra ára fangelsisdóm í útlöndum vegna líkamsárásar og tilraunar til manndráps, í gæsluvarðhald til 12. apríl.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst fyrir evrópsk handtökuskipun frá yfirvöldum í ótilgreindu landi þar sem óskað er eftir handtöku og afhendingu á eftirlýstum manni, en hann á eftir að sitja af sér fjögurra ára fangelsisdóm í ótilgreindu Evrópulandi.
Í kjölfar þess að handtökuskipunin barst var maðurinn handtekinn þar sem hann hélt til í húsnæði á vegum Útlendingastofnunar.
Brotið sem maðurinn var sakfelldur fyrir erlendis er mjög alvarlegt. Hann skar brotaþola á háls með hnífi og hélt atlögu sinni áfram eftir að brotaþolinn féll við. Það er mat Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að mikil hætta sé á að maðurinn flýi land ef hann sæti ekki farbanni og að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, þegar haft er í huga alvarlegt ofbeldisbrot mannsins erlendis.
Úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að maðurinn skuli sæta farbanni til 12. apríl. Héraðsdómur hefur síðan úrskurðað manninn í gæsluvarðhald til sama dags. Er meðal annars vísað til þess í rökstuðningi Landsréttar að maðurinn virðist ekki eiga nein sérstök tengsl við landið, verður ekki séð að hann eigi fjölskyldu hér, en maðurinn sótti um hæli á Íslandi í byrjun nóvember í fyrra. „Þegar litið er til þessarar afstöðu varnaraðila og takmarkaðra tengsla hans við Ísland er fallist á það með sóknaraðila að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að tryggja nærveru hans þar til leyst hefur verið úr kröfu […] yfirvalda um afhendingu hans. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina,“ segir í úrskurði Landsréttar.
Sjá nánar hér