Hæstiréttur hefur fallist á að taka fyrir mál fyrrverandi liðsmanns sérsveitar ríkislögreglustjóra sem glímir við áfallastreituröskun eftir aðgerð sérsveitarinnar í Hraunbæ árið 2013. Þar var umsátur um vopnaðan íbúa sem skaut út um glugga og fram á stigagang úr íbúð sinni. Sérsveitin felldi manninn og er það í fyrsta skipti sem lögregla á Íslandi skýtur mann til bana.
Sérsveitarmaðurinn upplifði sig í mikilli lífshættu á vettvangi og glímdi við áfallastreituröskun í kjölfarið. Héraðsdómur mat það svo að maðurninn ætti rétt á skaðabótum frá tryggingafélaginu VÍS og var félagið dæmt til að greiða honum 2,4 milljónir króna. Landsréttur sneri dómnum hins vegar við og sýknaði VÍS af kröfunni. Maðurinn var metinn af læknum með áfallastreitu en fyrir dómi var tekist á um hvort krafa hans væri fyrnd.
Maðurinn sótti þá um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar og það hefur nú verið samþykkt. Í ákvörðun Hæstaréttar er það reifað að sérsveitarmaðurinn telji úrslit málsins hafa verulegt almennt gildi enda sé tekist á um mat á fyrningarfresti í tengslum við einkenni áfallastreituröskunar sem komi seint fram. Ennfremur sé tekist á um hvort fjögurra ára eða tíu ára fyrningarfrestur gildi um kröfur úr slysatryggingu.
„Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um fyrningu kröfu á sviði vátrygginga. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt,“ segir Hæstiréttur.
Sjá nánar hér.