Morgunblaðið skýrir frá þessu og segir að þetta megi lesa úr skýrslu VSÓ vegna umhverfismats fyrirhugaðra framkvæmda.
Áform eru uppi um að byggja nýja austurálmu, stækka suðurbyggingu til austurs og breikka landganginn á milli suður- og norðurhluta flugstöðvarinnar, þannig að úr verði tengibygging.
Norðurbyggingin, sem er gamla flugstöðin, verður stækkuð til suðurs. Nýir landgangar verða byggðir til austurs í áföngum en fullbyggður á hann að rúma allt að 17 flugvélahlið með landgöngubrúm.
Bílastæðahús gleymast ekki því gert er ráð fyrir tveimur slíkum og verða þau samtals 100.000 fermetrar.
Þessum framkvæmdum er ætlað að mæta væntanlegri fjölgu farþega næsta áratug en farþegaspá Isavia gerir ráð fyrir að 11,4 til 13,6 milljónir farþega muni fara um völlinn árið 2032.