Anders Puck Nielsen, hernaðarsérfræðingur við danska varnarmálaskólann, sagði í samtali við TV2 að nú sé staðan breytt og ekkert bendi til að Rússum muni takast að ná bænum á sitt vald.
Hann sagði að staðan hafi breyst fyrir um viku þegar Úkraínumenn ákváðu loksins endalega að vera áfram í bænum og verja hann fyrir innrásarliðinu. „Það var einfaldlega ákveðið að senda fleiri hermenn til bæjarins og nú hefur þeim tekist að hrekja Rússana aftur á bak,“ sagði hann.
Hann sagðist vera hissa á hvernig staðan hefur breyst því lengi hafi litið út fyrir að Rússar myndu ná bænum á sitt vald.
Það eru aðeins ellefu dagar síðan Yevgeni Prigozhin, eigandi Wagner-málaliðafyrirtækisins, sagði Rússum hefði svo gott sem tekist að umkringja bæinn, aðeins væri einn vegur opinn til hans.
Nielsen sagði að enginn vafi leiki á að markmið Úkraínumanna sé að veikja rússnesku hersveitirnar eins mikið og hægt er með því að valda þeim miklu tjóni í Bakhmut. „Þeir vilja einfaldlega þreyta Rússana. Með því að halda áfram að berjast geta þeir valdið Rússum miklu tjóni,“ sagði hann.
Í kvöldfréttum TV2 á þriðjudagskvöldið sagði fréttamaður stöðvarinnar í Úkraínu að samkvæmt því sem úkraínskir hermenn, sem berjast í Bakhmut, segi þá séu bardagaaðferðir Rússa óhugnanlegar. Hermenn þeirra streymi að varnarlínum Úkraínumanna og sé fjöldinn svo mikill hverju sinni að það eina sem hægt sé að gera sé að reyna að skjóta eins marga og hægt er. En vandi Úkraínumannanna er að Rússarnir eru svo margir að Úkraínumennirnir ná ekki að hlaða byssurnar sínar þegar þeir hafa tæmt þær og þá komast rússnesku hermennirnir að þeim og fella þá. Rússar virðast því vísvitandi senda hermenn sína út í opinn dauðann og treysta á að fjöldi þeirra sé svo mikill að þeir muni að lokum yfirbuga Úkraínumenn.