Þann 1. mars síðastliðinn staðfesti Landsréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að vísa skuli frá dómi ákæru á hendur manni fyrir nauðgun. Tekist var á um fyrir dómi hvort skjal sem sýnir að maðurinn og konan sem ákærði hann gerðu með sér samning um að hann greiddi henni skaðabætur teldust nýtt sönnunargagn í málinu eða ekki. Vísir vakti athygli á málinu í gær.
Forsaga málsins er sú að kona kærði fyrrverandi sambýlismann sinn til lögreglu árið 2020 vegna brota frá árinu 2017. Kærði hún hann meðal annars fyrir nauðgun en einnig önnur brot, ofbeldi, blygðunarsemisbrot og brot á persónuverndarlögum. Fallið var frá því að ákæra manninn fyrir nauðgun í október árið 2021 en hann var ákærður fyrir annað kynferðisbrot gegn konunni, þ.e. að hafa tekið ljósmynd af rassi hennar og kynfærum á meðan hún var sofandi.
Í febrúar árið 2021 gerðu konan og maðurinn með sér skriflegt samkomulag þess efnis að hún félli frá kærunni gegn honum ef hann greiddi henni tíu milljónir króna og ræddi málið ekki við nokkurn mann. Ef hún bryti samkomulagið þyrfti hún að endurgreiða honum upphæðina. Engir lögmenn komu að gerð samkomulagsins fyrir hönd mannsins en hann sagðist ekki geta sagt til um hvort konan hefði notið aðstoðar lögmanna er hún tók þessa ákvörðun. Samkomulagið er birt nafnhreinsað í úrskurði héraðsdóms í málinu og er eftirfarandi:
„Ég X kt: […] heiti því að greiða A kt: […] 10.000.000 (Tíumilljónir) 7000.000 milljónir þann 1. mars 2021 og síðan rest eins fljótt og auðið er en aldrei yfir 6 ára tímabil. Þessi fjárhæð er hugsuð sem miskabætur fyrir þau brot sem ég X hef valdið A. Þau brot eru andlegt ofbeldi í formi hótana og þvingana. Brot á persónuverndarlögum þar sem X braust inn á samfélagsmiðla A. Blygðunarbrot þar sem X tók mynd af kynfærum A í leyfisleysi þegar hún var sofandi og nauðgun í endaþarm þegar A var sofandi áfengisdauða.
[…]. Þegar þessum samningi verður fullnægt þá heitir A að taka þetta mál ekki upp aftur né ræða þetta við nokkurn mann. Ef hún brýtur gegn því greiðir hún alla ofangreinda upphæð til baka að fullu.“
Gagnið var talin ástæða til þess að taka málið upp aftur og ákæra manninn fyrir nauðgun. Tekist var á um fyrir dómi hvort samkomulagið teldist vera ný sönnunargögn í málinu eða ekki. Verjandi mannsins heldur því fram að hann hafi gert samkomulagið undir þrýstingi og hótunum frá konunni, hún hafi hótað honun að rústa mannorði hans með því að tala um kæruna á hendur honum á samfélagsmiðlum og við foreldra hans.
Nauðgunarákærunni var hins vegar vísað frá dómi í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 9. febrúar og Landsréttur staðfesti þann úrskurð þann 1. mars. Einn dómari við Landsrétt skilaði sératkvæði og taldi að ekki ætti að vísa málinu frá.
Úrskurði héraðsdóms og Landsréttar má lesa hér.