Henni Sigríði Ásu Sigurðardóttur varð illilega brugðið þegar Pepsi Max flaska sem hún hafði fryst úti á svölum sprakk í tætlur eftir að hún tók flöskuna inn og lagði frá sér á gólfið. Eins og myndir bera með sér var töluvert verk að þrífa íbúðina eftir óhappið.
„Úff, mér brá,“ segir Sigríður í stuttu spjalli við DV og hlær við. Sigríður er heyrnarlaus og heyrði því ekki hvellinn sem varð þegar flaskan tættist eins og eftir sprengju. „Það er heilmikið verk að þrífa þetta, þetta er út um allt,“ segir hún.
Vísindamenn sem DV hefur rætt við segja að hitamismunur valdi ekki sprengingunni heldur frostið. Vatn þenst út í kulda og væntanlega hefði glerflaska sprungið í þeim kulda sem hefur verið undanfarið. Plastið gefur hins vegar eftir, það teygist á því, en væntanlega hefur flaskan verið að gefa sig þegar Sigríður hreyfði hana til og hreyfingin dugað til þess að flaskan sprakk.