Tilkynnt var um nokkrar líkamsárásir í miðborg Reykjavíkur til lögreglu í nótt og þar af voru þrjár stórfelldar. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu í morgun en ekki er greint frekar frá árásunum. Þá segir ennfremur í dagbókinni:
„Alls voru um fjörutíu mál skráð í kerfi lögreglu á næturvaktinni, meðal annars vegna hópsöfnunar í miðbænum og nokkurra slagsmála. Veður var kalt en viðskiptavinir skemmtistaðanna létu það ekki á sig fá. Þá var skoteldur tendraður í námunda við lögreglustöðina um miðnætti og vegfarendur gátu borið augum flugeldasýningu um stundarsakir, en notkun skotelda er ekki leyfð á þessum árstíma.“
Tilkynnt var um sprengingar í Vatnsendaskóla í Kópavogi og voru þar ungmenni að sprengja flugelda, samkvæmt tilkynnanda, en þau voru farin þegar lögregla kom á vettvang.
Töluverður viðbúnaður lögreglu var vegna umferðarslyss á Suðurlandsvegi en ekki greinir nánar frá því í dagbók.