Karlmaður er í haldi lögreglu, grunaður um að hafa brotist inn í nokkur fjölbýlishús í Breiðholti í nótt og morgun. Olli hann töluverðum skemmdum með innbrotsaðferð sinni en hann var staðinn að verki á einum staðnum þar sem hann var að brjótast inn, og handtekinn.. Lagt hefur verið hald á einhverja muni úr þessum innbrotum og nú er unnið í því að koma þeim til skila til eigenda sinna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni og í sömu tilkynningu er greint frá þriggja bíla árekstri sem varð á mótum Sæbrautar og Dalbrautar laust fyrir kl. 17 í dag. Minniháttar slys urðu á ökumönnum og farþegum samkvæmt fyrstu upplýsingum. Ekki er ljóst hvort hinir slösuðu voru fluttir til aðhlynningar á slysadeild þar sem vinna er enn í gangi á vettvangi. Miklar skemmdir urðu á bílunum og einhver þeirra eða einhverjir eru óökuhæfir.