Í dagbók lögreglu í morgun var greint frá því að þrjár alvarlegar líkamsárásir hefðu verið tilkynntar til lögreglu í gærkvöld og nótt. Ekki var greint frekar frá árásunum en farið var yfir þessi mál í frétt á Vísi undir hádegi.
Ein árásin átti sér stað á Petersen svítunni við Ingólfsstræti um tíuleytið í gærkvöld. Sá sem varð fyrir árásinni sagði sex menn hafa ráðist á sig og að hann hefði meðal annars verið tekinn hálstaki. Samkvæmt upplýsingu frá lögreglu var engum vopnum beitt og maðurinn er ekki alvarlega slasaður. Kom hann sér sjálfum á slysadeild eftir atvikið.
Hitt tilfellið átti sér stað um klukkan hálf fimm í morgun við skemmtistaðinn Palóma. Maður gaf sig þar á tal við lögregluþjóna og sagðist hafa skallað annan mann og rotað hann.
Þriðja tilfellið sem var nefnt í dagbókinni kann að hafa verið slys. Átti það atvik sér stað í heimahúsi í Grafarvogi. Liggur ekki fyrir um hvort um líkamsárás eða slys var að ræða en málið er í rannsókn.