Ábyrgur borgari lýsir miklum sóðaskap og ruslsöfnun á lóð Toppstöðvarinnar í Elliðaárdal. Kemur þetta fram í FB-hópnum „Plokk á Íslandi.“
Maðurinn óttast að ruslið á lóð Toppstöðvarinnar geti endað í sjálfum Elliðaánum en hann safnaði rusli á þessu svæði 17 poka í dag og náði samkomulagi við hverfisstöðina í Jafnaseli um að hirða ruslið. Maðurinn segir svo frá þessu í FB-hópnum:
„Síðustu mánuði hefur eins konar „Litla Sorpa“ orðið til á lóð Toppstöðvarinnar sem stendur við Elliðaárnar. Um er að ræða opið rými á Toppstöðinni sjálfri, þar sem fólk hefur verið að losa sig við sorp. Þetta er mjög bagalegt, enda hætt við því að eitthvað úr þessum haug endi í Elliðaánum.
Fyrir nokkru setti ég mig í samband við hverfisstöðina í Jafnaseli og úr varð að þau myndu hirða þetta fyrir mig ef ég myndi ganga þannig frá ruslinu að aðgengilegt væri fyrir þau að sækja það.
Ég gekk í þetta mál í dag og hreinsaði þarna út, auk þess sem ég tók það stærsta af lóðinni, flokkaði eftir bestu getu í plast, timbur, málma, rafmagnstæki, málningu og efnavörur. Annað sem til féll og var óflokkanlegt fyllti 17 ruslapoka.
Ég tel réttast að Reykjavíkurborg myndi láta smíða lokun á þetta hólf, bæði er þetta ekkert augnayndi, sem og er líklegt að sorp fari aftur að safnast þarna fyrir.“