Ragnheiður Sölvadóttir, móðir Guðmundar Sölva Ármannssonar, fjórtán ára drengs sem fæddist með tvíklofna vör og góm, hefur í mörg ár staðið í ströngu við að fá niðurgreidda læknisþjónustu fyrir son sinn.
DV birti í lok janúar viðtal við Ragnheiði þar sem hún sagði frá samskiptum sínum við Sjúkratryggingar Íslands, en Guðmundur Sölvi þarf á mikilli þjónustu tannlækna og tannréttindasérfræðinga að halda.
Það nýjasta í stöðunni er að í síðustu viku fékk tannréttingasérfræðingur sonarins rukkun frá Sjúkratryggingum Íslands. Þar er hann krafinn um endurgreiðslu upp á tugi milljóna króna vegna tannréttinga barna, meðal annars vegna Guðmundar Sölva.
Tannréttingalæknirinn með endurkröfu upp á 24 milljónir
„Við fengum bréf síðastliðinn föstudag um að tannréttingalæknirinn okkar ásamt öðrum hefði fengið endurkröfu frá Sjúkratryggingum upp á rúmlega 24 milljónir króna. Það er útreikningur síðan síðasta haust og samkvæmt nýjustu upplýsingum dettum við inn í þennan hóp,“ segir Ragnheiður í viðtali við Fréttablaðið.
Samkvæmt kröfunni mun læknirinn hafa notað meira en leyfilegt er á einu ári samkvæmt gjaldaliðum. „Þegar þú ert með börn sem þurfa á þessari þjónustu að halda og eru með þennan fæðingargalla, eru fædd með skarð í vör eða góm, er ekki hægt að áætla hversu mikið þarf að nota. Það þarf að meta hvert barn fyrir sig og sinna því.“
Segir hún kröfuna setja mál Guðmundar Sölva í erfiða stöðu og hans mál í biðstöðu eins og er.
Mæðginin funduðu í gær með Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra, sem að sögn Ragnheiðar tók vel í erindi þeirra.
„Það kom honum á óvart að skarðabörn eru sett undir sama hatt og venjulegar tannréttingar, en það hefur alltaf verið þannig. Willum segist ætla að fara ofan í saumana á þessu og skoða þetta betur. Ég vil ekki þurfa að taka þennan slag lengur. Við viljum bara að allir komist sáttir frá borði og að börnin okkar fái þá þjónustu sem þau svo sannarlega eiga rétt á.“
Viðtal Fréttablaðsins má lesa hér, en rætt verður rætt við Ragnheiði og Guðmund Sölva á Fréttavaktinni á Hringbraut klukkan 18.30 í kvöld.